Viðskipti innlent

Formaður slitastjórnar beggja vegna borðs

Sigríður Mogensen skrifar

Hlynur Jónsson, formaður slitastjórnar Spron og Frjálsa fjárfestingabankans, situr jafnframt í stjórn félags sem er stærsti kröfuhafi í þrotabú Frjálsa. Sem slitastjóri ákveður hann hvort yfir níutíu milljarða króna krafa félagsins í þrotabúið er samþykkt.

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Hlyn upphaflega sem formann skilanefndar Spron. Skilanefndinni var svo falið af hálfu Fjármálaeftirlitsins að stofna nýtt félag utan um eignir þrotabús Spron, en þær voru allar fluttar þar inn. Það félag heitir Drómi og má segja að það sé umsýslufélag þrotabús Spron.

Skilanefndin, með Hlyn í fararbroddi, skipaði síðan stjórn Dróma og tók Hlynur sæti sem formaður stjórnar félagsins.

Héraðsdómur skipaði seinna Hlyn sem formann slitastjórnar Spron.Í raun breyttist skilanefndin í slitastjórn. Hlynur Jónsson var einnig skipaður formaður slitastjórnar Frjálsa, sem var dótturfélag Spron. Drómi, þ.e.a.s. þrotabú Spron, er stærsti kröfuhafi Frjálsa fjárfestingabankans, með 99% af heildarkröfum. Hlynur Jónsson, fyrir hönd Dróma, gerir þannig 92 milljarða kröfu í þrotabú Frjálsa Fjárfestingabankans.

Sem formaður slitastjórnar Frjálsa tekur hann svo sjálfur ákvörðun um að samþykkja kröfuna. Einn kröfuhafa Frjálsa hefur kært þessa ráðstöfun - enda kunni það að brjóta í bága við lög um gjaldþrotaskipti að sömu aðilar sitji beggja vegna borðs.

Hlynur Jónsson, staðfesti í samtali við fréttastofu að málum væri svona háttað og upplýsti um fyrirkomulagið. Hann baðst þó undan viðtali vegna málsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×