Skoðun

Til hvers að sækja um aðild að ESB?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
Eftir hrunið í október 2008 stóðu íslendingar frammi fyrir geigvænlegum verkefnum. Landsmenn sumir áttu þó erfitt með að átta sig á stöðunni og hver yrðu mikilægustu viðfangsefni stjórnmálanna næstu misserin. Kom það meðal annars fram í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 2009. Á stundum mátti halda að ekkert hefði breyst þegar mesta púðrið á kosningafundum fór í að krefja frambjóðendur um loforð varðandi vegabætur eða önnur opinber útgjöld. Stóru viðfangsefnin voru lítið rædd. Til dæmis á hvern hátt ætti að hækka skatta þó öllum hugsandi mönnum hafi mátti vera ljóst að þá þurfti að hækka.

Það var mitt mat að tvö stærstu viðfangsefnin væru annars vegar að loka fjálagagatinu og hins vegar gjaldmiðilsmálið. Það hefur gengið þokkalega að fást við hallann á fjárlögum með skattahækkunum og niðurskurði á ríkiútgjöldum. Lítið hefur hins vegar verið rætt um gjaldmiðilsmálið, það er að segja hvaða gjaldmiðil við viljum nota til framtíðar og í hvernig kerfi. Kostirnir þar eru einkum þrír:

•Að vera með íslensku krónuna áfram.

•Nota aðra mynt með einhliða upptöku eða hugsanslega í samstarfi við viðkomandi ríki.

•Ganga inn í Evrópusambandið og taka upp evru.

Það hefur sína kosti og galla að vera áfram með íslenska krónu en sú leið gæti reynst þrautin þyngri. Traustið á þessum örgjaldmiðli hefur minnkað mikið, ekki síst hjá Íslendingum sjálfum. Afleiðingar vantraustsins koma þó ekki í ljós á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði. Að vera með íslenska krónu og gjaldeyrishöft til frambúðar er hins vegar afar slæmur kostur af mörgum ástæðum. Þá yrðu Íslendingar t.d. að hætta að vera hluti af Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er ekki ljóst hvort íslensk króna án gjaldeyrishafta, þ.e. á frjálsum markaði, sé farsæl leið heldur. Ef íslensk heimili hafa það lítið traust á krónunni að þau skipta sparnaði sínum við fyrsta tækifæri í öruggari gjaldmiðla þá er ekki hægt að vera með krónuna nema með því að hafa vexti svo háa að það vegi upp áhættuálagið á krónunni. Íslenskt atvinnulíf þarf þá að borga margfalt meiri fjármagnskostnað en samkeppnisaðilar í nágrannalöndunum. Slíkt mun koma niður á lífskjörum Íslendinga.

Það kemur vel til greina að taka upp annan gjaldmiðil einhliða en það er vandasamt bæði tæknilega og pólitískt og þá seðla og mynt sem setja þarf inn í hagkerfið í skiptum fyrir íslenskar krónur þarf að kaupa. Það er kostnaður upp á milljarða.

Upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu felur það í sér að Íslendingar myndu, að eðlilegum skilyrðum uppfylltum, geta notað næststærsta gjaldmiðil heims sem sína heimamynt auk þess sem stór hluti utanríkisviðskipta færi fram í heimamyntinni. Þær evrur sem þyrfti að setja inn í hagkerfið í skiptum fyrir íslenskar krónur fengjum við á silfurfati, ekki þyrfti að kaupa þær. Á bak við myntina stæði síðan Seðlabanki Evrópu í stað Seðlabanka Íslands.

Þetta hlýtur að vera besti kosturinn í gjaldmiðilsmálinu ef við getum sættum okkur við aðild að Evrópusambandinu. Það er því ekki einasta skynsamlegt að kanna hvort aðild að ESB geti orðið ásættanleg fyrir okkur heldur beinlínis algjörlega óábyrgt að gera það ekki. Slíkt verður aldrei fullkannað nema með aðildarumsókn sem leiðir til samnings sem þjóðin getur tekið afstöðu til. Með aðildarumsókn fæst úr því skorið hvort Evrópusambandið býður Ísland velkomið í fjölskylduna eða ekki. Ekki veit ég hvernig ég greiði atkvæði í kosningu um aðildarsamninginn, það fer allt eftir því hvernig hann verður. En ef hann verður það óaðgengilegur að hann verður felldur þá er í öllu falli hægt að segja með vissu að þessi möguleiki hafi verið fullkannaður og komi því ekki lengur til greina. Þá verðum við að snúa okkur að hinum möguleikunum tveimur, að vera áfram með íslenska krónu eða taka upp aðra mynt einhliða þó þeir séu báðir töluvert verri en evra með Evrópusambandsaðild.




Skoðun

Sjá meira


×