Erlent

Landnemabyggðir rísa á ný

Framkvæmdirnar hafa enn aukið spennu milli Ísraela og Palestínumanna.	Fréttablaðið/AP
Framkvæmdirnar hafa enn aukið spennu milli Ísraela og Palestínumanna. Fréttablaðið/AP
Ísraelsk yfirvöld hafa bundið enda á óformlegt bann við byggingu landnemabyggða í austurhluta Jerúsalem. Framkvæmdir á svæðinu höfðu legið niðri undanfarna mánuði en þær eru horn í síðu Palestínumanna, sem hefur fundist þrengt að sér í palestínska hluta borgarinnar.

Friðarviðræður þjóðanna hófust aftur í september fyrir tilstilli Bandaríkjamanna en hafa að mestu legið niðri undanfarnar vikur. Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefur neitað að verða við kröfu Palestínumanna um framlengingu á banni við byggingu landnemabyggða sem rann út í september. Palestínumenn neita að setjast við samningaborðið fyrr en Ísraelar verða við þeirri kröfu.

Yfirvöld í Ísrael hafa ekki tjáð sig um málið en Saeb Erekat, yfirsamningamaður Palestínumanna, sagði ákvörðunina vera skýrt merki þess að Netanjahú veldi landnemabyggðir umfram frið.

Palestínumenn eru stærstur hluti íbúa í austurhluta Jerúsalem en um 180 þúsund Ísraelar hafa flutt á svæðið síðan Ísrael náði yfirráðum þar af Jórdaníu árið 1967. Palestínumenn vilja að Austur-Jerúsalem verði höfuðborg palestínsks ríkis í framtíðinni en Ísraelar vilja halda yfirráðum yfir sínum byggðum. Hefur deilan um þessar byggðir verið einn helsti ásteytingarsteinn friðarviðræðnanna undanfarin ár.- mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×