Erlent

Ætlar ekki að færa flokkinn til vinstri

Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Mynd/AP

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, segir Verkamannaflokkinn eiga að vera flokk millistéttarinnar. Hann ætlar ekki að svara kalli grasrótarinnar og færa flokkinn meira til vinstri fyrir kosningar.

Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur átt erfitt uppdráttar heimafyrir og harður slagur er framundan milli hans og Davids Camerons, leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Öll pólitísk umræða í Bretlandi er lituð stéttabaráttu og var búist við því að Brown myndi jafnvel færa Verkamannaflokkinn meira til vinstri til að höfða betur til grasrótarinnar í flokknum.

Í grein sem Brown skrifar í breska dagblaðið The Guardian í dag segir hann að breski Verkamannaflokkurinn eigi að vera flokkur millistéttarinnar. Með þessu hafnar hann því að höfða eigi sérstaklega til grasrótarinnar og færa flokkinn til vinstri til að styrkja stöðu hans.

Brown segir í grein sinni að hann vilji stækka og styrkja millistéttina í landinu. Tækifæri og umbun eigi ekki aðeins að vera á færi þeirra sem standa í efsta þjóðfélagsþrepinu og ekki sé nóg að vernda og styrkja þá tekjulægstu.

Brown færir rök fyrir því að hægt sé að fjölga störfum mikið mikið með nýsköpun, en búist er við að skapa megi sjö milljónir nýrra starfa með þeim hætti fyrir 2020. Brown segir að þetta verði aðeins að veruleika með virkri atvinnustefnu.

Fréttaskýrendur í Bretlandi segja að skrif Browns um að höfða eigi til millistéttarinnar og að hana þurfi að styrkja og stækka sé vísbending um að kosningarnar í júní næstkomandi muni ekki vinnast með því að draga línu milli stéttanna í landinu, en með þeirri aðferðafræði hafi Verkamannaflokkurinn unnið síðustu þrjár kosningar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×