Erlent

Ganga ekki á bak orða sinna

Toomas Hendrik Ilves
Toomas Hendrik Ilves
Ákveðið hefur verið að Eistland taki upp evruna í byrjun næsta árs, þrátt fyrir vaxandi áhyggjur af framtíð evrunnar. Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins samþykktu þetta á fundi sínum í Brussel.

„Auðvitað höfum við áhyggjur," segir Kalev Vapper, talsmaður eistnesku stjórnarinnar, þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. „En við gáfum loforð okkar um að ganga í evrubandalagið, og getum ekki gengið á bak þeirra orða núna. Heiðarlegt fólk stendur við orð sín."

Vapper segir Eista eigi að síður sannfærða um að evran ráði við erfiðleikana sem nú steðja að, sem meðal annars eru vegna ástandsins í Grikklandi.

Eistland fékk aðild að Evrópusambandinu árið 2004, en hefur verið með mynt sína tengda evrunni allar götur síðan 1999. Aðildinni fylgir að evran verður mynt landsins um leið og öllum skilyrðum evrusvæðisins um ríkisskuldir, fjárlagahalla, verðbólgu og fleira er fullnægt.

Upphaflega gerði Eistland sér vonir um að taka upp evruna árið 2007, en það hefur dregist vegna hárrar verðbólgu í Eistlandi. Samdráttur í Eistlandi í kjölfar heimskreppunnar 2008 varð hins vegar til þess að mjög dró úr verðbólgu í landinu, svo hún er nú komin vel niður fyrir viðmiðunarmörk evrusvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×