Handbolti

Rússneski björninn varð að rússneska bangsanum

Arnór Atlason á hér skot að marki í leiknum í dag.
Arnór Atlason á hér skot að marki í leiknum í dag. Nordic Photos/AFP

Ísland vann ótrúlega auðveldan sigur á Rússlandi, 38-30, í öðrum leik liðanna í milliriðli I á EM í Austurríki.

Ísland er þar með komið á topp riðilsins í bili en Króatar geta aftur nælt í toppsætið með sigri á Austurríki á eftir sem verður að teljast líklegt.

Íslenska liðið aftur á móti í frabærri stöðu og komið með nokkrar tær inn í undanúrslit keppninnar eftir þennan sigur.

Frábær fyrri hálfleikur íslenska liðsins lagði grunninn að sigrinum en Rússarnir hreinlega gáfust upp. Rússneski björninn beit ekki mikið frá sér í leiknum og minnti meira á rússneskan bangsa í þessum leik. Langt síðan maður hefur séð rússneskt lið eins dapurt.

Það verður þó ekkert tekið af íslenska liðinu sem lék afar vel. Leikmenn mættu einbeittir til leiks, tóku verkefnið alvarlega og voru ákveðnir að klára Rússana snemma sem þeir og gerðu. Fagmannlega frammistaða.

Ísland-Rússland 38-30 (19-10)

Mörk Íslands (skot): Snorri Steinn Guðjónsson 7/2 (8/3), Alexander Petersson 7 (13), Sturla Ásgeirsson 5 (5), Vignir Svavarsson 3 (3), Ásgeir Örn Hallgrímsson 3 (5), Ólafur Stefánsson 3/1 (5/2), Róbert Gunnarsson 3 (7), Aron Pálmarsson 2 (4), Guðjón Valur Sigurðsson 2 (5), Arnór Atlason 2 (6), Ólafur Guðmundsson 1 (5).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16 (39/2, 41%), Hreiðar Guðmundsson 3 (10/2, 30%).

Hraðaupphlaup: 13 (Sturla 3, Alexander 3, Vignir 2, Snorri Steinn 2, Ásgeir Örn 1, Guðjón Valur 1, Róbert 1).

Fiskuð víti: 5 (Snorri Steinn 2, Vignir 1, Ingimundur 1, Róbert 1).

Utan vallar:
12 mínútur

Mörk Rússlands (skot):, Mikhail Chipurin 8 (9), Samvel Aslanyan 5/4 (8/4), Vasily Filippov 4 (8), Sergey Predybaylov 3 (5), Andrey Starykh 3 (5), Alexey Rastvortsev 2 (4), Alexey Kaynarov 2 (4), Alexander Chernoivanov 1 (1), Alexey Kamanin 1 (1), Dmitry Kovalev 1 (3), Vitaly Ivanov (1), Konstantin Igropulo (2).

Varin skot: Oleg Grams 19/1 (57/4, 33%).

Hraðaupphlaup: 2 (Filippov 1, Kaynarov 1).

Fiskuð víti: 4 (Chipurin 2, Rastvortsev 1, Aslanyan 1).

Utan vallar: 10 mínútur.

Vísir var með leikinn í beinni lýsingu og hana má sjá hér að neðan.

Leik lokið: 38-30 fyrir Ísland. Öruggur sigur hjá íslenska liðinu sem afgreiddi leikinn í fyrri hálfleik.

59. mín: Ólafur Guðmundsson dansar í gegnum rússnesku vörnina og skorar. Hreiðar ekki að verja neitt í markinu. Aron með lygilega huggulegt undirhandarskot í markið. 37-30.

57. mín: Rússar taka leikhlé og skora í kjölfarið. Ásgeir Örn með hörkuskot sem fer í slána. Hann er síðan rekinn af velli. Strákarnir þurfa aðeins að gefa í ef þeir ætla að vinna með 10 mörkum. 35-28.

55. mín: Vignir fiskar víti sem Snorri tekur og skorar úr. 35-26.

53. mín: Ólafur Guðmundsson fær að spila rúmar átta mínútur. Hans fyrstu mínútur í stórmóti. Hann fór beint upp en skaut yfir. Sturla skorar sitt fimmta mark í leiknum. 34-25.

51. mín: Menn virðast vera að bíða eftir að leiknum ljúki. Hreiðar kominn í markið. 33-24.

49. mín: Vignir með sitt annað mark í leiknum og fiskar mann af velli. Heldur hægst á leiknum enda úrslitin ráðin. Alexander skorar úr hraðaupphlaupi. 33-22.

47. mín: Rússar að minnka forskotið niður úr plús 10 mörkunum. 31-22.

45. mín: Sturla með mark utan af velli þegar Ísland er manni færra. Ótrúlegt. 30-20.

43. mín: Björgvin heldur áfram að verja ágætlega. Ólafur með sendingu að hætti Magic Johnson. Menn farnir að leika sér en þjálfarinn ekki að skipta óþreyttu mönnunum inn. Sumum þykir þetta minna á Benitez, þjálfara Liverpool, sem er þekktur fyrir að skipta seint inn á. Vignir Svavarsson skorar. 29-18.

41. mín: Enn eru strákarnir að klúðra úr dauðafærum. Ætti að vera að lágmarki 15 marka munur. Rússar missa mann af velli er einn Rússinn gefur Sturlu olnbogaskot. Ólafur skorar auðveldlega utan af velli. 27-17.

40. mín: Róbert fiskar víti. Ólafur tekur vítið og lætur verja frá sér. Grams að verja allt of mikið í rússneska markinu. Ólafur hefnir með því að skora utan af velli. 26-17.

38. mín: Snorri skorar úr hraðaupphlaupi. Rússum gengur betur að skora enda menn ekki eins mikið á tánum í vörninni og það skiljanlega. Rússar missa mann af velli fyrir litlar sakir. Róbert klúðrar af línunni. Ólafur kominn inn aftur. 25-17.

36. mín: Ásgeir Örn skorar núna. Allir að komast á blað. Meiri hraði í leiknum núna en í þeim fyrri. Rússar reyna að komast upp úr fyrsta gírnum. Vignir fær aftur brottvísun. Hann er búinn að vera klaufalegur í vörninni í dag sem og í gær. 24-15.

34. mín: Róbert skorar úr hraðaupphlaupi og aftur tíu marka munur, 23-13.

33. mín: Rússar byrja síðari hálfleik ágætlega en við svörum að bragði. Sturla með sitt annað mark. 22-13.

31. mín: Rússar byrja síðari hálfleik á því að skjóta í stöng. Sama byrjunarlið og hóf leikinn fyrir utan að Ásgeir Örn er í hægra horninu og Alexander í skyttunni. Ólafur fær að hvíla. Alexander skorar fyrsta mark hálfleiksins og Rússar svara. 20-11.

Tölfræði fyrri hálfleiks:

Mörk Íslands: Alexander 5, Snorri Steinn 5/1, Guðjón Valur 2, Róbert 2, Aron 1, Ásgeir 1, Sturla 1, Arnór 1, Ólafur Stef. 1/1.

Hálfleikur: 19-10 fyrir Ísland. Frábær fyrri hálfleikur hjá strákunum okkar. Vörnin geggjuð, Björgvin frábær í markinu og fínn sóknarleikur. Strákarnir hafa verið helst til of kærulausir í sumum færum sem hefðu mátt enda í netinu. Vísir spáir því að eftir 10 mín í síðari hálfleik verði allir komnir inn sem lítið eða ekkert hafa fengið að spila. Þó ekki fyrr en eftir tíu mín af síðari hálfleik.

28. mín: Vignir var varla kominn inn af bekknum fyrr en hann fékk brottvísun. Rússar skora úr víti. 17-9.

26. mín: Sturla Ásgeirsson kemur inn í sínum fyrsta leik og skorar úr hraðaupphlaupi. Þrátt fyrir tíu marka mun hefur íslenska liðið klúðrað fjórum eða fimm dauðafærum. 17-7.

25. mín: Íslenski Lettinn Alexander Petersson hefur augljóslega gaman af því að berja á Rússum og hann skorar sitt fjórða mark. Rússar fá núna dæmda á sig línu og svo er maðurinn lentur. Þvílíkur klaufaskapur. Rússarnir eru eins og áhugamenn í þessum leik. Snorri fær ódýrt víti. Dómararnir eru nú ekkert sérstaklega hliðhollir Rússum. Snorri skýtur í slá úr vítinu, nær frákastinu og skorar. 16-6 fyrir Ísland.

23. mín: Sverre fær fyrstu brottvísun Íslands í leiknum og Rússar nýta sér það og skora fáséð mark. Aron með huggulegt mark. 14-6.

21. mín: Það mætti halda að Rússar væru að skjóta á fótboltamörk, þeir skjóta það hátt yfir trekk í trekk. Snorri skorar úr hraðaupphlaupi. Þetta er veisla. 13-4.

19. mín: Alexander kominn í skyttuna og skorar um leið. Aron einnig kominn í skyttuna hinum megin. Þetta er leikurinn þar sem Sturla, Logi, Ólafur og Vignir ættu að fá að spila eitthvað. Rússarnir skjóta yfir, þeir eru ævintýralega daprir. Ingimundur fiskar víti, Snorri tekur vítið og skorar örugglega. 12-4.

17. mín: Rússar fá enn og aftur dæmdan á sig ruðning. Þeir eiga engin svör við varnarleik íslenska liðsins. Rússneski markvörðurinn ver ágætlega og nú í tvígang frá Arnóri. Ísland heldur samt boltanum og að lokum dæmd lína á Ásgeir Örn.

15. mín: Þriðja mark Rússa kemur eftir rúmar 14 mínútur. Það segir sitt um vörnina og markvörsluna hjá íslenska liðinu. Arnór með enn eitt markið utan af velli. 10-3.

14. mín: Strákarnir ná að keyra hraðaupphlaup á fullu og forskotið eykst. 9-2.

13. mín: Allt er þegar þrennt er hjá Róberti sem skorar loksins og núna vandaði hann sig almennilega. Ekkert kæruleysi. Strákarnir mæta rétt stemmdir, ekkert kæruleysi og ætla sér að slátra þessum leik. 7-2.

12. mín: Ekki skilaði leikhléið miklu því Alexander fiskar ruðning í fyrstu sókn eftir hléð. Róbert með slaka vippu, Rússar hratt fram en Björgvin ver enn og aftur. Strákarnir klúðra tveim skotum í hraðaupphlaupi. Rússar fram á ný og hvað haldiði? Jú, Björgvin ver að sjálfsögðu. 5-1.

10. mín: Rússar taka leikhlé í stöðunni 5-1 enda ekkert að ganga hjá þeim.

9. mín: Fyrsta mark Rússa kemur eftir átta mínútna leik. Alexander skorar úr hraðaupphlaupi eftir að hafa klúðrað skoti í sókninni á undan. 5-1.

8. mín: Björgvin heldur áfram að verja en Guðjón klúðrar hraðaupphlaupinu. Við höldum samt boltanum. Snorri fær boltann á línuna frá Arnóri og skorar. Smekklega gert. 4-0 og íslenska hraðlestin í góðu formi.

5. mín: Snorri Steinn skorar með góðu skot. Uppstökki aldrei þessu vant. Björgvin ver tvö skot í röð en Rússar halda boltanum. Vörnin byrjar vel og við vinnum boltann aftur. Snorri fiskar víti. Ólafur tekur vítið og skorar. 3-0, frábær byrjun.

3. mín: Fyrsta sókn Rússa rennur út í sandinn. Þeir spila hægan og þungan sóknarleik. Ólafur tapar boltanum. Rússar í hraðaupphlaup en Björgvin ver. Fín hefð hjá honum að verja alltaf fyrsta skot leiksins.

1. mín: Róbert skorar fyrsta mark leiksins. Nær frákasti og skorar. 1-0.

Fyrir leik: Ingimundur Ingimundarson er klár í slaginn og byrjar leikinn. Sverre gerir það líka þó svo hann sé aumur í fingri.


















































































Fleiri fréttir

Sjá meira


×