Innlent

Dæmdar 55 milljónir í bætur vegna slyss í Laugardalslaug

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Maðurinn lenti með höfuðið á botni laugarinnar, hlaut af mænuskaða og lamaðist fyrir lífstíð. Við það hlaut hann 100% örorku.
Maðurinn lenti með höfuðið á botni laugarinnar, hlaut af mænuskaða og lamaðist fyrir lífstíð. Við það hlaut hann 100% örorku. Mynd/Arnþór Birkisson
Hæstiréttur hefur dæmt Vátryggingafélag Íslands til að greiða ungum pólskum manni tæpar 50 milljónir króna í bætur auk vaxta vegna slyss sem hann varð fyrir í Laugardalslaug árið 2007. Með vísan til skaðabótalaga komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að líta bæri fram hjá því að maðurinn væri meðábyrgur að tjóni sínu og dæmdi honum því fullar bætur vegna slysins. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt manninum rúmar 33 milljónir í bætur.

Maðurinn lenti með höfuðið á botni laugarinnar, hlaut af mænuskaða og lamaðist fyrir lífstíð. Við það hlaut hann 100% örorku. 

Maðurinn taldi að varúðarmerkingar við sundlaugina hefðu verið ófullnægjandi á það féllst dómurinn. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að  merkingar um dýpi og um að dýfingar væru bannaðar hefðu  ekki verið greinilegar og því væri ekki fullnægt fyrirmælum reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Í matsgerð tveggja lækna, sem málsaðilar öfluðu sameiginlega, kemur fram að afleiðingar mænuskaða mannsins séu ,,mjög alvarlegar, það er lömun á þvagblöðru og þarf að tappa þvagi af blöðru reglulega með þvaglegg. Hægðalosun fer fram með aðstoð lyfja og gerist ekki á annan hátt. Engin hreyfigeta er í ganglimum og verulega skert hreyfigeta í efri útlimum.“

Þá segir að maðurinn sé ekki sjálfbjarga að koma sér í og úr hjólastól. Að öllum líkindum verður hann upp á aðra kominn um alla ævi hvað þetta varðar vegna skertrar starfsemi í handleggjum og höndum. Maðurinn hefur notið hjálpar bróður síns og vinar þeirra, en óvíst er hve lengi það getur orðið, segir í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×