Upp­gjörið: Kauno Zalgiris - Valur 1-1 | Ævin­týra­legt glópa­lán Vals­manna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tryggvi Hrafn var hetjan í Kaunas.
Tryggvi Hrafn var hetjan í Kaunas. Rob Casey/SNS Group via Getty Images

Valur náði í jafntefli við Kauno Zalgiris í fyrri leik liðanna í 2. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu ytra í kvöld. Leiknum lauk 1-1 eftir dramatískt jöfnunarmark sem var fullkomnlega óverðskuldað.

Valur mætti heimamönnum í Kaunas í Litáen í dag eftir að hafa unnið frábæran 5-1 samanlagðan sigur á Flora Tallinn frá Eistlandi og vonuðust eftir álíka lukkulegri heimsókn til Eystrasaltsins.

Það var þó ekki mikið að frétta í leik Valsmanna sem voru lakari aðilinn í fyrri hálfleik. Heimamenn sköpuðu sér engin dauðafæri, sem slík, en voru töluvert hættulegri á meðan Valsmenn gátu vart klárað sendingu á vallarhelmingi andstæðingsins.

Undir lok hálfleiksins komst Frakkinn Fabien Ourega nálægt því að skora en Orri Sigurður Ómarsson gerði afar vel að komast fyrir skot hans og boltinn af slánni og aftur fyrir.

Markalaust var í hléi en aftur var Ourega í hringiðunni þegar tæpt korter var liðið á síðari hálfleik. Hann átti hreint agalegt skot sem var að fara víðs fjarri marki en honum til happs fór skotið í höfuð Romualdas Jansonas hvaðan boltinn fór í boga yfir Frederik Schram í marki Vals.

Frederik hafði verið góður í marki Vals og varið um tíu marktilraunir heimamanna áður en að markinu kom og hann bjargaði Valsmönnum frábærlega þegar sex mínútur lifðu leiks. Zalgiris komst í skyndisókn eftir langt innkast, margir Valsmenn höfðu hætt sér fram, Amine Benchaib tímasetti fullkomnlega sendingu á Ernestas Burdzilauskas en Frederik varði og hélt Val inni í leiknum.

Litáunum refsaðist fyrir klúðrið skömmu síðar.

Adam Ægir Pálsson átti stórgóða fyrirgjöf frá hægri, beint á hausinn á Tryggva Hrafni Haraldssyni. Markvörðurinn litáíski misreiknaði boltann, ætlaði að grípa fyrirgjöfina en Tryggvi stakk sér fram fyrir hann og stangaði boltann í autt netið.

Glimrandi mark en glópalán fyrir Valsmenn sem fara með jafna stöðu heim frá Litáen. Liðin mætast öðru sinni eftir slétta viku á Hlíðarenda og einvígið galopið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira