Viðskipti innlent

Munar um aukinn útflutning á áli

Aukinn útflutningur á áli vegur upp minni útflutning sjávarafurða fyrstu tvo mánuði þessa árs.
Aukinn útflutningur á áli vegur upp minni útflutning sjávarafurða fyrstu tvo mánuði þessa árs.
Viðskiptajöfnuður var hagstæður um 20,6 milljarða króna fyrstu tvo mánuði ársins, 10,2 milljörðum hagstæðari en sömu mánuði síðasta ár.

Mikill samdráttur varð í innflutningi en heildarverðmæti útfluttrar vöru stóð nánast í stað.

Vörur voru fluttar inn fyrir 62,5 milljarða, sem er 10,1 milljarði króna minna en í sömu mánuðum í fyrra.

Hlutfallslega er samdrátturinn 13,9 prósent. Samdrátturinn nær til nánast allra tegunda innflutnings en var hlutfallslega mestur í innflutningi flutningatækja og eldsneytis.

Íslendingar fluttu út vörur í janúar og febrúar fyrir 83,2 milljarða. Á föstu gengi jókst útflutningsverðmæti um 0,1 prósent milli ára. Verðmæti útfluttra sjávarafurða dróst saman um 6,6 prósent en sjávarafurðir voru 35,4 prósent af verðmæti alls útflutnings þessara tveggja mánaða. Útflutningur iðnaðarvöru var 60 prósent útflutningsins og þriðjungi verðmætari en í janúar og febrúar 2009. Þar munar mestu um aukinn útflutning á áli, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.- pg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×