Erlent

Kom öllum í opna skjöldu

Horst Köhler
Horst Köhler
Ákvörðun Horsts Köhler, forseta Þýskalands, um að segja af sér og láta strax af embætti á sér ekkert fordæmi í sögu Þýskalands.

Angela Merkel kanslari segist hafa reynt án árangurs að telja honum hughvarf.

Köhler segir ástæðuna vera þá hörðu gagnrýni sem hann varð fyrir eftir að hann lét umdeild ummæli falla í útvarpsviðtali nýverið um þátttöku þýska hersins í stríðsrekstrinum í Afganistan.

Þar sagðist hann í grundvallaratriðum sáttur við störf þýska hersins í Afganistan, en bætti því við að þýski herinn geti stundum þurft að grípa til aðgerða til að verja viðskiptahagsmuni Þjóðverja.

Í yfirlýsingu, sem Köhler sendi frá sér í gærmorgun, segir hann leitt að þessi orð sín hafi verið misskilin. Verra sé þó þegar gagnrýnendur segi hann styðja það, að herinn sé notaður til verka sem stangast á við stjórnarskrá Þýskalands.

„Þessi gagnrýni er ekki á neinn hátt réttlætanleg. Í hana skortir nauðsynlega virðingu fyrir embætti mínu,“ segir í yfirlýsingunni.

Við embættinu tekur til að byrja með Jens Böhmsen, sem er forseti Sambandsráðsins, efri deildar þýska þjóðþingsins.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×