Erlent

FIFA íhugar að banna blásturshljóðfærið vuvuzela á HM

Forráðamenn FIFA íhuga nú alvarlega að banna háværann hornablásturinn á leikjunum í Heimsmeistarakeppninni í fótbolta (HM) sem nú fer fram í Suður Afríku.

Um er að ræða hljóðfærið vuvuzela en það er það háværasta sem fotboltaáhugafólk tekur með sér á leikina. Það þykir ekki bara truflandi fyrir sjónvarpsútsendingar frá leikjunum heldur er einnig talið geta valdið heyrnarsköðum hjá þeim sem sækja leikvellina sjálfa.

Mælingar sem gerðar voru fyrir mótið sýna að hávaðinn frá vuvuzela nær 127 desibelum sem er nokkuð meira en hávaðinn frá brasilískum sambatrommum og töluvert yfir hættumörkum. Til samanburðar mælist hávaðinn frá vélsög um 100 desibel.

FIFA ákvað upphaflega að vuvuzela skyldi leyft á leikjunum þrátt fyrir þá miklu hljóðmengun sem fylgir blæstrinum. Nú eru sjónvarpsstöðvar víða um heim hinsvegar farnar að kvarta mikið undan því hve vuvuzela hljóðin eru áberandi í útsendingum af leikjunum og hafi truflandi áhrif á þá sem horfa á leikina í sjónvarpi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×