Innlent

Bíður tillagna frá ríkissaksóknara

Dómsmálaráðherra segir búið að stórauka fjárveitingar til ákæruvaldsins.
Dómsmálaráðherra segir búið að stórauka fjárveitingar til ákæruvaldsins.

„Ákveðið var með lögum að fresta stofnun embættis héraðssaksóknara til 2012, þar sem ekki voru til fjármunir,“ útskýrir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra spurð um stöðuna á stofnun embættis héraðssaksóknara.

„Við gerum ráð fyrir að að embætti sérstaks saksóknara starfi til 2014. Við erum einnig með áform um að fækka lögregluumdæmunum. Frumvarp þess efnis tekur vonandi gildi á septemberþinginu.“

Þá segir Ragna það á hreinu að huga þurfi sérstaklega að framtíð efnahagsbrotadeildar.

„Ég hef óskað eftir því við ríkissaksóknara að hann komi með heildstæðar tillögur um hvernig best sé að skipa ákæruvaldinu í landinu með tilliti til ofangreindra þátta. Við höfum ákveðið að vera í samvinnu um það og ég bíð eftir að fá þær tillögur. Þótt löggjafinn sé búinn að ákveða að setja á fót embætti héraðssaksóknara er þetta orðið dálítið snúið þegar æðsti handhafi ákæruvaldsins lýsir sig svo andsnúinn því sem raun ber vitni.“

Ragna bendir á að þegar sé búið að stórauka fjárveitingar til að byggja upp ákæruvaldið, þar sem sé embætti sérstaks saksóknara. Því sé ekki hægt að segja að stjórnvöld hafi ekki eflt ákæruvaldið eftir föngum. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×