Innlent

Ber af sér sakir um fjárdrátt

Höfuðborgin Stokkhólmur.
Höfuðborgin Stokkhólmur.

Fyrrverandi formaður samtakanna Heimilis og skóla í Svíþjóð, Jakob S. Jónsson, hefur verið sakaður um fjárdrátt. Greint var frá málinu í fréttaskýringaþættinum Uppdrag og gransking í sænska ríkissjónvarpinu á fimmtudagskvöld. Í þættinum var fullyrt að Jakob hefði misnotað aðstöðu sína og greitt fyrir ýmsa einkaneyslu með greiðslukorti samtakanna á þeim tíma sem hann gegndi við formennsku í félaginu árið 2007.

Á þeim kvittunum sem þáttastjórnrendur hafa undir höndum er meðal annars að finna greiðslur fyrir hreindýrafile, nautasteik, skötusel, lúðu, eðalvín og líkjör. Reikningarnir sýna fram á greiðslur upp á 40 þúsund sænskar krónur, eða um 670 þúsund íslenskar krónur.

Samkvæmt sænskum fjölmiðlum fullyrðir fyrrverandi stjórnarmeðlimur Heimilis og skóla í Svíþjóð að stjórnin hafi farið nær vikulega á veitingahús og bari og greitt hafi verið með fjármunum samtakanna.

Jakob sagði í samtali við þáttinn að um væri að kenna óreiðu í bókhaldi.

„Enginn er fullkominn," sagði hann. „Ég er ekki skipulagður maður. Ég get vel séð um fjárhagsáætlanir en ég er ekki endurskoðandi sem situr og skoðar kvittanir og annað slíkt." Hann sagðist jafnframt í viðtali við sænska fjölmiðla vera afar ósáttur við umfjöllunina. Ekki náðist í Jakob við vinnslu fréttarinnar. - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×