Handbolti

Góður sigur Rhein-Neckar Löwen á Göppingen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með íslenska landsliðinu.
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Pjetur

Rhein-Neckar Löwen kom sér upp í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með góðum sigri á Göppingen í kvöld, 34-27.

Löwen hafði þar með sætaskipti við Göppingen en þrátt fyrir sigurinn á fyrrnefnda liðið tæplega möguleika á því að ná Flensburg í þriðja sæti deildarinnar og öðlast þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Flensburg vann Dormagen á útivelli á sama tíma í kvöld, 30-26, og er í þriðja sæti deildarinnar með þriggja stiga forystu á Löwen. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í leiknum.

Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Löwen í kvöld en Guðjón Valur Sigurðsson er frá vegna meiðsla.

Þá tapaði Düsseldorf fyrir Balingen á útivelli, 35-25. Sturla Ásgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Düsseldorf sem er í neðsta sæti deildarinnar með tíu stig, rétt eins og Minden.

Minden gerði í kvöld jafntefli við Hannover-Burgdorf á heimavelli, 27-27. Gylfi Gylfason skoraði fjögur mörk fyrir Minden og Ingimundur Ingimundarson þrjú. Hannes Jón Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Hannover-Burgdorf.

Minden og Düsseldorf eru þremur stigum á eftir Dormagen sem er í þriðja neðsta sæti með þrettán stig. Ef Dormagen heldur því sæti þarf liðið að fara í umspil við lið úr þýsku B-deildinni um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×