Viðskipti innlent

Reuters: Ekki útilokað að Icesaveviðræður haldi áfram

Í frétt á Reuters um fund nýju íslensku samningsnefndarinnar í Icesave málinu með breskum og hollenskum embættismönnum segir ekki útilokað að fundað verði aftur um málið á morgun og/eða hinn daginn.

Reuters hefur heimildir fyrir þessu meðal viðmælenda Íslendinganna (one creditor nation source, eins og það er orðað í fréttinni). Haft er eftir þessum heimildarmanni að hann..."geti ekki útilokað" að viðræðurnar standi yfir í lengri tíma en einn dag.

Sami heimildarmaður segir jafnframt að bresku og hollensku embættismennirnir sem hitta Íslendingana verði ekki háttsettir sökum þess að fjármálaráðherrar ESB hefja fund sinn um ástandið í Grikklandi í dag.

Eins og fram kom í fréttum Bylgjunnar í hádeginu hélt nefndin af landi brott í morgun en mikil leynd hvílir yfir ferðinni. Fundað verður með breskum og hollenskum embættismönnum í London í Bretlandi í dag.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gær er það bandaríkjamaðurinn Lee Buchheit sem leiðir nefndina. Auk hans sitja í nefndinni Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu.

Kanadamaðurinn Don Johnston og Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður, munu sitja samningafundi sem áheyrnarfulltrúar og ráðgjafar. Lárus kom inn í nefndina að kröfu stjórnarandstöðunnar en Lárus hefur haldið uppi harðri gagnrýni á Icesave samkomulagið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×