Erlent

Eymdin algjör í Kirgistan

Svo virðist sem vopnuð gengi Kirgista gangi um og skjóti allt sem hreyfist, en lýsing sjónarvotta á aðstæðum í suðurhluta landsins er skelfileg. Einn sjónarvottur lýsir því þannig í samtali við Reuters fréttastofuna að gengi Kirgista skjóti Úsbeka eins og dýr. Þá er borgin Osh, sem er þungamiðja átakanna og önnur stærsta borgin, í rúst.

Stjórnvöld í Kirgistan hafa gefið öryggissveitum landsins leyfi til þess að drepa í tilraun til þess að stöðva uppþot þjóðarbrota í borginni sem hefur tekið að minnsta kosti áttatíu líf. Kurmanbek Bakiyev, fyrrum forseti landsins er í útlegð í Hvíta-Rússlandi, neitar að tengjast ólgunni í landinu.

Kirgistar eru 70% af landsmönnum en Úsbekar eru um 15%.

Margir Úsbekar hafa flúið borgina og í átt til landamæranna við Úsbekistan. Fréttamaður AP fréttastofunnar sem er við landamæri Kirgistan og Úsbekistan sagði að gífurlegur fjöldi Úsbeka hefði flúið yfir landamærin og sagðist hann hafa séð lík ungra barna sem troðist höfðu undir. Eymdin væri algjör.

Ein kona við landamærin bað um hjálp: „Ég á tvo syni sem eru ungir og mig vantar vatn og mat til að lifa af."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×