Skoðun

Að vera borgari

Guðlaugur G. Sverrisson skrifar
Nú er mikið fjallað um komandi stjórnlagaþing og væntanlega yfirferð á stjórnarskrá Íslands. Í því ljósi hefur mér verið hugsað til orðsins borgari sem á ensku er orðið „citizen". Lagt er mikið upp úr því að vera borgari í lýðræðisríkjum í hinum vestræna heimi. Fjallað er um réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum og réttindin varin í stjórnarskrá viðkomandi landa.

Við þekkjum ákallið í amerískum bíómyndum að einhver segist vera „US citizen" eða bandarískur borgari og eigi þar af leiðandi sjálfkrafa rétt á ýmsum réttindum og úrræðum í þeim aðstæðum sem viðkomandi er staddur í. Allir virðast upplýstir um að þeir eigi einhver réttindi gagnvart afskiptum stjórnvalda af þeirra lífi. Engar spurningar eða þras, viðkomandi hefur réttindi hvort sem það er gagnvart löggæslumönnum, lánardrottnum eða fulltrúum stjórnvalda. Enginn á að geta gengið á grunnrétt borgaranna við það eitt að eiga viðskipti sín á milli, sé það gert á sanngjarnan hátt og tekið sé tillit til aðstöðumunar hverju sinni.

Nú hefur átt sér stað forsendubrestur á Íslandi í kjölfar bankahrunsins. Allir finna fyrir því á einhvern hátt. Vöruverð hefur rokið upp, eignir hafa hrapað í verði, lán hafa stökkbreyst, skattar hækkað og opinber gjöld verið hækkuð. Það er staðfest að kaupmáttur hefur rýrnað að meðaltali um 15% á einu ári. Það er vegið að grunnrétti þínum sem borgara, t.d. með því að sumir fá að halda sínum kröfum til fullnustu á meðan aðrir þurfa að sjá á eftir eigum sínum. Þetta er ekki sanngjarnt ástand þar sem forsendubrestur hefur átt sér stað. En svo rann upp fyrir mér ljós. Að vera borgari á Íslandi þýðir að vera sá sem borgar. Þú, kæri lesandi, ert borgari og skalt borga. Borgaraleg réttindi (rétturinn til að fá borgað) liggja öll hjá fjármagnseigendum. Við þurfum kannski ekki stjórnlagaþing eftir allt saman, heldur betri skilning hjá stjórnvöldum á orðinu borgari.




Skoðun

Sjá meira


×