Handbolti

Arnór: Eigum hrós skilið fyrir síðustu mínúturnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Arnór á ferðinni í dag.
Arnór á ferðinni í dag. Mynd/DIENER

Arnór Atlason sagði að þrátt fyrir allt hafi íslenska liðið sýnt mikinn styrk á lokamínútum leiksins gegn Króatíu á EM í handbolta í kvöld.

„Við vorum að elta síðustu þrjár mínúturnar og náðum að skora þrjú jöfnunarmörk á þessum kafla. Og það úr sóknum sem við erum ekki endilega mikið að skora úr öllu jöfnu. Þetta var hrikalega mikilvægt stig og það er enn í okkar höndum að komast í undanúrslitin.“

Hann segir að það megi ekki gleyma því hversu sterkt lið Króatar eru með.

„Þetta eru engir apakettir sem við erum að spila við. Þetta er silfurþjóðin á bæði HM og EM. Að fá eitt stig á móti þeim er ekki heimsendir.“

„Við vorum að spila þokkalega en það sem drap okkur voru allar tveggja mínútna brottvísanirnar sem við fengum í seinni hálfleik. Fram að því vorum við með leikinn í okkar höndum.“

„Það kostar hellingskraft að spila færri svo lengi gegn þessu sterka liði.“

Hann segir sóknarleik íslenska liðsins hafa gengið vel, sérstaklega miðað við hvað Króatar spila öflugan varnarleik.

„Það er mjög erfitt að spila á móti svona vörn. Maður verður að hugsa mjög mikið. Þeir reyna ítrekað að plata mann í sendingar hingað og þangað sem þeir svo éta. Mér fannst við því leysa þetta mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×