Viðskipti innlent

FME gerði athugasemd við auglýsingar Elísabetar

Tryggingamiðstöðin (TM) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins um athugasemdir við viðskipti tveggja tryggingafélaga. TM segir að gerð hafi verið athugasemd við framsetningu á auglýsingum hjá Elísabetu sem er skráð vörumerki í eigu TM.

Yfirlýsingin hljóðar svo: „Á vef Fjármálaeftirlitsins (FME) kemur fram að gerðar hafi verið athugasemdir við viðskipti tveggja tryggingafélaga þegar iðgjöld og viðskiptahættir vátryggingafélaganna voru til skoðunar.

Af því tilefni vill Tryggingamiðstöðin árétta að sú athugasemd sem að félaginu snýr varðaði lágverðsvörumerkið Elísabetu, sem er skrásett vörumerki í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar.

Laut athugasemdin að framsetningu auglýsinga og að ekki hafi komi fram með nógu skýrum hætti að vörumerkið Elísabet væri í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar. Brugðist var við athugasemdum FME innan tilskilinna tímamarka.

Hvorki voru gerðar athugasemdir við verðlagningu Tryggingamiðstöðvarinnar í ökutækjatryggingum né aðra þætti hjá félaginu."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×