Erlent

Makaskiptarar og striplingar í stríði

Óli Tynes skrifar
Striplarar eru náttúruunnendur.
Striplarar eru náttúruunnendur.

Strandbærinn Cap d'Agde á suðurströnd Frakklands er stundum kallaður berrassaði bærinn vegna hins mikla fjölda striplara sem þangað sækja til þess að baða sig naktir og liggja í sólinni.

Samkomulag milli striplaranna og bæjarbúa hefur verið með ágætum enda halda þeir fyrrnefndu sig á sínum afmörkuðu ströndum og klæða sig snyrtilega þegar þeir ganga um bæinn.

Striplararnir (núdistar) eru ósköp venjulegt fjölskyldufólk sem líður vel ef það er nakið. Undanfarin ár hefur hinsvegar farið að bera á öðru fólki sem finnst gaman að vera alsbert í hópum. Það eru makaskiptarar (swingerar) sem eru ekki eins penir.

Það hefur komið til átaka milli striplara og makaskiptara. Fyrir tveim árum var jafnvel kveikt í tveim hótelum sem makaskiptarar höfðu lagt undir sig.

Bæjarbúar standa með striplurunum. Þeir kvarta undan því að börn hafi jafnvel komið að makaskipturum við að eðla sig á almannafæri.

Bæjarstjórinn hefur lofað að taka fast á málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×