Viðskipti innlent

Hollenskur prófessor dregur Icesave-ummæli til baka

Hollenski lagaprófessorinn Edgar du Perron, sem á dögunum skrifaði grein í hollenska dagblaðið Volksrant þar sem sagði að Frakkar hefðu bannað Landsbankanum að hefja Icesave starfsemi í landinu, hefur dregið ummæli sín til baka. Í grein sinni sagði hann að hollensk yfirvöld hefðu getað gert slíkt hið sama.

Á hollensku vefsíðunni dutchnews.nl segir að fyrrverandi ráðherra í íslensku ríkisstjórninni, Björgvin G. Sigurðsson, hafi viðhaft svipuð ummæli degi fyrr. Nú hefur prófessorinn hins vegar ritað aðra grein í blaðið þar sem hann segir að fyrri heimildir sínar hafi verið rangar. Franski seðlabankinn sendi frá sér tilkynningu á fimmtudaginn þar sem ummælum prófessorsins var mótmælt og sagt að aldrei hafi borist formleg beiðni um að leyfa Icesave í Frakklandi.

Du Perron, sem hefur rannsakað Icesave málið fyrir hollensk stjórnvöld, segist hinsvegar standa við fyrri ummæli sín þess efnis að hollenskir ráðherrar og yfirmenn seðlabankans þar í landi hefðu getað gert meira til þess að hamla því að Icesave kæmi inn á hollenskan markað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×