Handbolti

Guðmundur: Fyrir félaga sem á um sárt að binda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. Mynd/DIENER
Guðmundur Guðmundsson tileinkaði Gunnari Magnússyni sigur íslenska landsliðsins á Noregi á EM í handbolta í dag.

Ísland vann glæsilegan sigur, 35-34, í erfiðum leik og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum keppninnar.

„Okkur hefur ekki liðið vel því félagi okkar hefur átt um sárt að binda. Við hugsum mikið til hans og ákváðum að tileinka honum þennan sigur," sagði Guðmundur eftir leikinn.

„Við hugsum mikið til hans og eru erfiðar tilfinningar hjá mörgum í liðinu. Ég er því afskaplega ánægður með hvernig liðið kláraði þennan leik."

Hann segir þó að baráttan haldi áfram, enda taki við gríðarlega erfiður leikur í undanúrslitum gegn annað hvort Póllandi eða Frakklandi.

„Nú eru tveir gríðarlega erfiðir leikir eftir og því tekur nú við annað verkefni. Þetta er alls ekki búið þó gleðin sé mikil núna."

Hann segir að það hafi verið afar erfitt að eiga við norska liðið í kvöld.

„Þeir eru svakalega erfiðir og alls ekki auðvelt að vinna þá. Þetta er líklega besta norska lið sem ég hef séð. Þó svo að þeir séu ekki með rétthenta skyttu eru þeir með svakalega skotmenn, línumenn og góðan markmann. En okkur tókst að vinna þá en það mátti ekki miklu muna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×