Erlent

Á fjórða tug látnir í Bangkok

Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra Tælands, hvetur mótmælendur til að hætta aðgerðum sínum. Hann segir að herinn muni ekki hörfa.
Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra Tælands, hvetur mótmælendur til að hætta aðgerðum sínum. Hann segir að herinn muni ekki hörfa. Mynd/AP
36 hafa nú látið lífið í átökum tælenska hersins og mótmælenda í Bangkok undanfarna daga. Forsætisráðherra landsins segir að herinn muni ekki hörfa.

Stjórnarandstæðingar krefjast þess að þing landsins verði leyst upp og að boðað verði til kosninga. Aðgerðir stjórnarandstæðinga, sem eru stuðningsmenn Thaksins Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa staðið í um tvo mánuði. Í byrjun apríl var neyðarástandi lýst yfir í Bangkok en nú hafa stjórnvöld lýst yfir neyðarástandi í 22 héruðum til viðbótar.

Eftir að sáttaumleitanir runnu út í sandinn í síðustu viku blossuðu átökin upp á nýjan leik. Skothvellir heyrðust í morgun og í alla nótt í höfuðborginni.

Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra Tælands, hvetur mótmælendur til að hætta aðgerðum sínum. Hann segir að herinn mun ekki hörfa.

Fyrrverandi hershöfðingi sem studdi stjórnarandstöðuna og var skotinn í höfuðið fyrir tæpri viku lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í gær. Talið er að leyniskytta hafi skotið hann þegar hann var í viðtali við blaðamann New York Times.

Frá því að seinni lota hinna hörðu átaka hófst fyrir viku hafa 36 manns látið lífið. Eftir að aðgerðir mótmælenda hófust fyrir tveimur mánuðum hafa á sjöunda tug manna dáið og um 1600 særst.

Fjölmörg ríki, þar á meðal Bretar, hafa lokað sendiráðum sínum í Bangkok vegna ástandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×