Handbolti

Veigar Páll í VG: Norðmenn, þið getið gleymt undanúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson var liðtækur í handboltanum á sínum yngri árum.
Veigar Páll Gunnarsson var liðtækur í handboltanum á sínum yngri árum. Mynd/Anton
Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stabæk í Noregi, tjáir sig um handbolta í Verdens Gang í dag. Veigar Páll æfði handbolta með yngri flokkum Stjörnunnar og komst meðal annars í sextán ára landsliðið þar sem hann spilaði með Ingimundi Ingimundarsyni núverandi landsliðsmanni.

„Það er alltaf erfitt að spá í handboltann en við eigum að vera með betra lið og ættum að vinna þennan leik. Ég held að íslenska landsliðið fari í undanúrslitin með Króatíu," segir Veigar.

Blaðamaður VG á EM í Austurríki talaði við Ingimund Ingimundarson og spurði hann hvort Veigar Páll hafi getað eitthvað í handbolta. „Veigar Páll var mjög góður handboltamaður og mikið efni," sagði Ingimundur.

„Ég var kannski betri í handbolta á sínum tíma heldur en margir af leikmönnum liðsins í dag en það er erfitt að spá fyrir hvort ég hefði getað komist í atvinnumennsku til Þýskalands," segir Veigar Páll sem fann til með norska landsliðinu á móti Dönum.

„Norðmenn voru mjög óheppnir á móti Dönum. Þeir voru yfir allan tímann og greinilega með betra lið. Það hlýtur að hafa verið mjög sár úrslit fyrir norska liðið," sagði Veigar sem hefur horft á alla leiki Íslands ásamt félaga sínum Pálma Rafni Pálmasyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×