Erlent

Vonbrigði í stað aðdáunar

Bandaríkjaforseti Obama hefur enn ekki komið í verk neinum af helstu baráttumálum sínum.fréttablaðið/AP
Bandaríkjaforseti Obama hefur enn ekki komið í verk neinum af helstu baráttumálum sínum.fréttablaðið/AP

Vinsældir Baracks Obama Bandaríkjaforseta hafa dvínað töluvert frá þeim hæðum sem þær voru í þegar hann tók við embætti fyrir réttu ári.

Um það bil fimmtíu prósent eru þó enn ánægð með störf hans, þótt prósentan rokki eitthvað til eftir skoðanakönnunum.

Þótt ár sé liðið hefur honum ekki tekist að hrinda í framkvæmd neinum af þeim helstu málum sem hann lagði áherslu á í kosningabaráttunni. Í þýska tímaritinu Spiegel er fullyrt að í stað aðdáunar sé fólk farið að vorkenna honum.

Marga er til dæmis farið að lengja eftir því að hann loki Guantánamo-fangabúðunum á Kúbu, sem hann lofaði að gera innan árs eftir að hann tók við, og ástandið í Afganistan fer stöðugt versnandi.

Meira að segja ríkti í gær veruleg óvissa um örlög heilbrigðisfrumvarpsins, sem tryggja átti nánast öllum Bandaríkjamönnum sjúkratryggingar. Örlög frumvarpsins réðust af úrslitum aukakosninga í Massachusetts um þingsæti Edwards Kennedy í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hafi repúblikanar sigrað, eins og skoðanakannanir bentu til, vantar demókrata eitt atkvæði í deildinni til að tryggja frumvarpinu endanlega samþykkt.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×