Erlent

Fjöldi húsa er brunninn í miklum eldsvoða í San Francisco

Fjöldi húsa er brunninn eftir mikinn eldsvoða í einu af úthverfum San Francisco í Bandaríkjunum í nótt, skammt frá flugvelli borgarinnar.

Gífurleg sprenging varð í hverfinu í nótt og stafaði hún frá stórri gasleiðslu sem liggur undir hverfinu. Fjöldi slökkviliðsmanna vinnur við að ráða niðurlögum eldanna en að sögn sjónarvotta teygðu eldtungurnar sig margra metra í loftið.

Búið er að flytja alla íbúa hverfsins á brott og hafast þeir við í tveimur neyðarskýlum. Vitað er um einn sem hefur farist í eldsvoðanum og 28 hafa slasast.

Mikil skelfing greip um sig í fyrstu í hverfinu þar sem talið var að um hryðjuverkaárás væri að ræða. Ekkert bendir þó til þess.

Í frétt um málið á CNN segir að nú sé búið að slökkva eldinn í um helming húsanna en 53 hús eru ónýt eða verulega skemmd. Önnur 120 hús hafa einnig orðið fyrir skemmdum vegna eldsvoðans. Vatnsskortur hefur hamlað slökkvistarfinu og þarf nú að flytja vatn með tankbílum á svæðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×