Handbolti

Arnór: Ólympíuleikarnir voru engin tilviljun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Arnór Atlason var með 10 mörk og 7 stoðsendingar í leiknum í dag.
Arnór Atlason var með 10 mörk og 7 stoðsendingar í leiknum í dag. Mynd/DIENER
Arnór Atlason var maður leiksins gegn Noregi í dag. Hann skoraði tíu mörk í tólf skotum og skoraði þar að auki gríðarlega mikilvæg mörk undir lok leiksins. Hann átti ríkan þátt í sigri Íslands í dag.

Ísland er nú komið í undanúrslit á EM í handbolta í Austurríki eftir sigur á Noregi í Vínarborg í dag, 35-34.

„Þetta var nú ekki leiðinlegt, sérstaklega á móti Steinari," sagði Arnór við Vísi eftir leikinn og brosti breitt.

„Þetta var alveg frábært. Nú líður mér eins og við erum búnir að sanna að Ólympíuleikarnir voru engin tilviljun. Við erum komnir í hóp bestu handboltaþjóða í heimi og höfum nú staðfest það."

Hann segir að hann hafi verið duglegur að skjóta því hann fann sig einfaldlega vel í upphafi leiks.

„Ég skoraði úr fyrstu skotunum og þá jókst sjálfstraustið hjá mér. Við héldum svo bara áfram og áfram. Það var frábært að sjá þetta allt í netinu og eiga það góðan þátt í að tryggja okkur sæti í undanúrslitum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×