Erlent

Tveimur stúlkum bjargað

Frá björgunaraðgerðum í höfuðborginni Port au Prince í gær.
Frá björgunaraðgerðum í höfuðborginni Port au Prince í gær. Mynd/AP
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Haítí í gær og ræddi við René Preval, forseta landsins, um aðgerðir til hjálpar þeim sem illa urðu úti úr jarðskjálftanum á þriðjudaginn. Að fundi loknum sagði Clinton við fréttamenn að Bandaríkjastjórn myndi vera til staðar og gera hvað hún gæti til að koma landinu til hjálpar. Hún sagði að Haíti myndi standa sterkara að þessum harmleik loknum.

Eiginmaður hennar, Bill Clinton, mun svo ásamt George Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, stýra fjáröflunarátaki sem kynnt var í gær.

Líkurnar á að fólk finnist á lífi í rústunum er orðnar afar litlar. Þrátt fyrir að meira en eitt þúsund rústabjörgunarmenn séu að störfum náðist aðeins að bjarga tveimur manneskjum í gær. Það voru tvær litlar stúlkur, 7 ára og 11 ára, sem rússneskir björgunarmenn fundu og björguðu.

Fréttamenn á Haítí segja að ringulreið einkenni ennþá hjálparstarfið. Lítið skipulag sé til að mynda við útdeilingu mats og vatns þannig að þeir eldri og máttlausari verða útundan. Forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins segjast hins vegar vera að ná betri tökum á aðstæðum en gríðarlegu magni að hjálpargögnum hefur verið flogið til landsins undanfarna daga.

Fjöldinn allur af íbúum höfuðborgarinnar Port au Prince hafa gripið til þess ráðs að flýja borgina til staða sem urðu ekki eins illa út úr skjálftanum. Hundruð þúsund íbúa borgarinnar eru heimilislausir og hafast við í tjöldum eða skýlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×