Viðskipti innlent

Hlutafjáraukningunni lokið

Ingibjörg 
Pálmadóttir
Ingibjörg Pálmadóttir

Eins milljarðs hlutafjáraukningu í 365 miðlum er lokið. Þetta staðfestir Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður félagsins. Hún segir hlutafjáraukninguna verða nýtta til að lækka skuldir og bæta sjóðsstöðu félagsins til muna.

Hlutafé 365 miðla nemur nú um þremur milljörðum, um 2,4 milljörðum í A-hluta og um 600 milljónum í B-hluta. „Ég er ánægð að þetta er í höfn," segir Ingibjörg, sem fer með 90,2 prósent af A-bréfunum, atkvæðisbæru hlutafé. Þá á Ari Edwald forstjóri 5,9 prósenta hlut og Stefán Hilmarsson fjármálastjóri 3,8 prósent.

Ingibjörg segir efnahags-reikning fé-lagsins nú kominn í viðunandi horf og öll skilyrði lánasamninga uppfyllt. „Það er þó ljóst að vel þarf að halda á spöðunum í rekstri því 365, eins og önnur fyrirtæki, gengur nú í gegnum ólgusjó í íslensku efnahagslífi og þarf að búa við óskiljanlega hávaxtastefnu sem dregur súrefni úr fyrirtækjum og kemur í veg fyrir fjárfestingar."

Ingibjörg segir ekki ástæðu til að fara út í hverjir fari með eignarhald á B-bréfum 365. „Það eru þöglir hluthafar sem fara ekki með atkvæði í félaginu og hafa þess vegna engin áhrif á stjórnun þess."

Þá áréttar Ingibjörg að hún fari sjálf með atkvæðisréttinn í 365 miðlum. Eiginmaður hennar og meðeigandi að félaginu er Jón Ásgeir Jóhannesson.- óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×