Erlent

Fórnarlamba hamfara leitað í rústum

Margir vegir á Madeira fóru í sundur í flóð og aurskriðum helgarinnar.  
Nordicphotos AFP
Margir vegir á Madeira fóru í sundur í flóð og aurskriðum helgarinnar. Nordicphotos AFP

Leitað var í húsarústum á Madeira í gær en að minnsta kosti fjögurra er saknað eftir flóð og aurskriður helgarinnar. Alls 42 létust í hamförunum. Notast var við leitarhunda og björgunarsveitir grófu bíla upp úr leðjuhraukum. Vatni og leðju var og dælt úr bílakjallara verslunarmiðstöðvar í miðbænum þar sem óttast var að einhverjir hefðu orðið innlyksa.

Flóðin féllu eftir að stormur reið yfir eyjuna á laugardag. Aurskriður sem féllu niður fjallshlíðar í kjölfar rigninganna hrifu með sér tré, bíla, hús, vegir eyðilögðust og brýr hrundu. Eyðileggingin er gríðarleg en stormurinn er sá versti í manna minnum á Madeira.

Þó að opinberlega sé einungis fjögurra saknað óttast yfirvöld mjög að þeir séu fleiri, sambandsleysi vegna ónýtra símalína og vega hefur komið í veg fyrir að yfirvöld hafi yfirsýn yfir afleiðingar hamfaranna.

Talsmaður stærsta sjúkrahússins í Funchal, höfuðborgar Madeira, sagði 151 hafa leitað lækninga við sárum af völdum flóðanna. Yfirvöld óttast fleiri aurskiður og hafa beðið íbúa á hættusvæðum um að yfirgefa heimili sín. Skólar voru lokaðir í gær og íbúar voru hvattir til að vera heima.

Madeira er stærst eyja í samnefndum eyjaklasa í Atlantshafi sem er um 480 kílómetra undan vesturströnd Afríku. Eyjarnar tilheyra Portúgal. Tæplega 250 þúsund búa þar, nær allir á Madeira-eyju. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×