Erlent

Vilja lög á háværar sjónvarpsauglýsingar

Óli Tynes skrifar

Bandaríkjaþing er að íhuga að setja lög sem banna sjónvarpsstöðvum að hafa hljóðstyrk á auglýsingum hærri en hljóðstyrk á dagskrárliðum.

Slík lög eru þegar í gildi í Bretlandi þar sem sjónvarpsstöðin ITV3 var nýlega ávítuð fyrir að brjóta þau.

Flestir sjónvarpsáhorfendur kannast sjálfsagt við að hafa fálmað eftir fjarstýringunni þegar argandi auglýsing hefur komið inn í uppáhalds þáttinn þeirra.

Ný bandarísk rannsókn sýnir að of háværar auglýsingar angra 89 prósent sjónvarpsáhorfenda.

Auglýsendur virðast vera að skjóta sjálfa sig í fótinn með þessu því þetta verður til þess að auglýsingin fer fyrir ofan garð og neðan, samkvæmt fyrrnefndri könnun.

41 prósent lækka í sjónvarpinu, 22 prósent taka hljóðið alveg af og 17 prósent skipta einfaldlega um rás.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×