Skoðun

Fjölgum störfum á Íslandi

Orri Hauksson skrifar
Upplýsingafulltrúi BSRB, Kolbeinn Óttarsson Proppé, víkur sterkum orðum að undirrituðum og Samtökum iðnaðarins í grein hér í blaðinu. Taldi hann okkur reyna að varpa rýrð á opinbera starfsmenn og beita til þess talnablekkingum. Hvorugt á við rök að styðjast. Samtök iðnaðarins hafa bent á það undanfarið að stórfelld kreppa og atvinnuleysi hefur ríkt í mörgum iðngreinum undanfarin þrjú ár en á meðan gefa opinber gögn til kynna að störfum í opinbera geiranum hafi fjölgað umtalsvert síðustu árin.

Kolbeinn dregur í efa samanburðarhæfni tiltekinna talna Hagstofunnar milli ára, sem við höfum vitnað í, og byggir sínar stóryrtu ávirðingar á Samtök iðnaðarins þar á. Þetta réttlætir varla ásakanir á hendur Samtaka iðnaðarins um lygar og blekkingar enda snýst boðskapur okkar ekki um hver sé hárnákvæmur fjöldi opinberra starfsmanna á hverjum tímapunkti.

Kolbeinn bendir réttilega á að nýlega hafi verið breytt um starfaflokkunarkerfi hjá Hagstofunni. Þannig kunna fjöldatölur starfsmanna í opinbera geiranum að undanförnu að vera mældar með örlítið mismunandi aðferðum eftir því sem tíminn líður. Þetta er hins vegar aukaatriði. Samtök iðnaðarins hafa engan ásetning um að bera á borð rangar tölur eða túlka þær á misvísandi hátt. Lykilatriðið er að óheyrilegur fjöldi starfa hefur tapast og samdráttur í þjóðarbúskapnum er mikill. Enn sem komið er hefur kreppan bara í takmörkuðu mæli birst þeim sem starfa í opinbera geiranum. Benda má á frétt Stöðvar 2 frá sl. sunnudagskvöldi, en þar kom fram að atvinnuleysi meðal þeirra sem störfuðu hjá hinu opinbera er um 2%, á meðan atvinnuleysi af almennum vinnumarkaði er um 9%. Þar kom einnig fram að sl. 10 ár hafi opinberum starfsmönnum fjölgað um 47%. Þessar tölur er tæpast hægt að draga í efa og eru til marks um að einkageirinn er að axla þyngstu byrðarnar vegna kreppunnar í formi mikils atvinnuleysis og minnkandi atvinnu.

Vissulega stendur opinberi geirinn nú frammi fyrir erfiðleikum enda er umtalsverður niðurskurður fram undan sem óhjákvæmilega mun valda fækkun starfa í þeim geira. Þetta þarf hins vegar ekki að þýða að störfum í landinu þurfi að fækka.

Samtök iðnaðarins hafa síður en svo horn síðu opinberra starfsmanna. Við erum öll Íslendingar, verkefnið er að fjölga störfum varanlega í landinu og gefa vinnufúsum höndum viðnám fyrir krafta sína, hvað sem vinnuveitandinn heitir í hverju tilviki. Atvinnulífið og heimilin greiða skattana sem hið opinbera ver til rekstrar síns í dag. Skuldir hins opinbera verða að sköttum á morgun. Hinn almenni vinnumarkaður og hið opinbera geta unnið ágætlega saman að því að draga úr kostnaði hins opinbera en fjölga um leið störfum í landinu og skjóta sterkari stoðum undir efnahag landsins.










Skoðun

Sjá meira


×