Skoðun

Er Viðskiptaráð meðvirkt?

Gísli Hjálmtýsson skrifar
Peningamálafundur Viðskiptaráðs sem haldinn var á dögunum var athyglisverður.

Þar hélt Seðlabankastjóri hróðugur tölu um árangur í efnahagsmálum, s.s. styrkingu krónunnar, vaxandi efnahagsstöðugleika og lækkandi verðbólgu. Hann sagði jafnframt að unnið væri hörðum höndum að afnámi gjaldeyrishaftanna, þótt raunar væri engra breytinga að vænta fyrr en í mars á næsta ári hið fyrsta og hann teldi ljóst að framlengja þyrfti lög um gjaldeyris­höft, sem renna út síðsumars.

Skrítið hvernig hægt er að túlka þetta sem skipulegt afnám gjaldeyrishafta.

Í framhaldinu tók við pallborð stórsérfræðinga sem ræddu afnám gjaldeyrishaftanna og fram komu efasemdir um að af því gæti orðið í bráð. Þeir slógu fram fullyrðingum á borð við að afnám hafta yrði ekki fyrr en nokkru eftir að stjórnmálakreppunni lyki, að afnámið yrði ekki fyrr en eftir fimm til tíu ár þegar búið væri að byggja upp nægan gjaldeyrisforða, og að höftin yrðu svo lengi sem krónan væri við lýði og hyrfu ekki fyrr en við tækjum upp evruna.

Enginn í salnum mótmælti þessu, jafnvel þótt öllum sé ljóst að langvarandi gjaldeyrishöft munu valda ómældu tjóni.

Eftir fundinn sátu í huga mér tvær megin­ályktanir. Í fyrsta lagi að Seðlabankastjóri virðist lifa í sýndarveruleika sem ég þekki ekki sem raunveruleikann sem ég starfa í. Viðbrögðin við skilaboðum Seðlabankastjóra voru doði, jafnvel uppgjöf - meðvirkni vandræðaheimilis sem vill ekki tala hátt um hið augljósa.

Í öðru lagi virtust fundarmenn sammála um að krónan væri dauð sem gjaldmiðill og gjaldeyrishöft yrðu hér til langs tíma, líklegast svo lengi sem við hefðum krónuna. Eina lausnin væri að taka upp evru. Flestum er ljóst að það verður ekki til lengri tíma nema með inngöngu í ESB.

Því er rétt að spyrja:

Ef einhugur ríkir meðal meðlima Viðskiptaráðs um að krónan sé ónýt, hvers vegna berst Viðskiptaráð ekki fyrir upptöku nýs gjaldmiðils? Ef einhugur ríkir um að eini raunverulegi kosturinn fyrir annan gjaldmiðil sé evran - hvers vegna beitir Viðskiptaráð sér þá ekki fyrir upptöku evrunnar? Þar sem flestum er ljóst að upptaka evrunnar til lengri tíma geti ekki orðið nema með inngöngu í Evrópusambandið, hvers vegna berst Viðskiptaráð ekki fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið?








Skoðun

Sjá meira


×