Viðskipti innlent

Átta fá tæpar 8 milljónir úr Hönnunarsjóði Auroru

Átta hönnuðir og arkitektar fá úthlutað 7.880.000 kr. úr Hönnunarsjóði Auroru í dag við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands kl. 16:30. Að þessu sinni bárust sjóðnum 62 umsóknir á sviði arkitektúrs, grafískrar hönnunar, fatahönnunar, vöruhönnunar og landslagsarkitektúrs.

Fjölbreytileiki umsóknanna gefur sjóðnum tækifæri til að breikka starfssvið sitt enn frekar og koma að fjölbreyttum verkefnum á öllum sviðum hönnunar og arkitektúrs.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða fyrstu úthlutun ársins af þremur en hinar tvær eru áætlaðar í maí og september og verður umsóknarfrestur auglýstur sérstaklega á heimasíðu sjóðsins. Þetta er gert til að mæta enn frekar hraða og veltu verkefna í faginu.

Hönnunarsjóður Auroru var stofnaður 13 febrúar 2009 af Auroru Velgerðarsjóði og er því árs gamall um þessar mundir. Á fyrsta starfsári Hönnunarsjóðsins hlutu 18 verkefni alls 22.660.000 kr í styrki, en þar af koma 3.660.000 kr til greiðslu á þessu ári.

Fatahönnuðir og vöruhönnuðir voru atkvæðamestir í umsóknum og einnig úthlutuðum styrkjum, en samstarfsverkefni sjóðsins voru hins vegar af ýmsum toga, t.d Hagnýtt Hádegi, fyrirlestrarröð um praktísk málefni, Íslensk samtímahönnun, farandsýning Hönnunarmiðstöðvar Íslands til kynningar á íslenskri hönnun erlendis og Auroru letrið, Copper Stencil eftir Gunnar Þór Vilhjálmsson

Að auki kynnti Hönnunarsjóðurinn sérstaka styrki til nýlegra útskrifaðra hönnuða og arkitekta í starfsreynslu hjá starfandi fagfólki. Hönnunarsjóðurinn er stoltur bakhjarl allra þessara verkefna.

Velgerðarsjóður Auroru var stofnaður af athafnamanninum Ólafi Ólafssyni, oft kenndur við Samskip, og eiginkonu hans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×