Viðskipti innlent

Marel tapaði 11,8 milljónum evra - skuldir lækkuðu

Tekjur af kjarnastarfsemi Marels árið 2009 námu 434,8 milljónum evra og jukust jafnt og þétt á árinu. Rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi var 24,8 milljónir evra, sem er 5,7% af veltu. Heildartekjur ársins 2009 námu 531,7 milljónum evra, samanborið við 540,1 milljón evra árið 2008. Tap eftir skatta var 11,8 milljónir evra samanborið við 8,4 milljóna evra árið áður. Skuldir hafa hinsvegar lækkað á sama tíma.

Í tilkynningu frá félaginu segir að Marel hafi haldið áfram að styrkja samkeppnisstöðu sína á árinu með því að einbeita sér að samþættingu samstæðunnar og verulegum niðurskurði í útgjöldum, sem lækkaði kostnaðargrunn rekstursins um 25 milljónir evra. „Nettó vaxtaberandi skuldir hafa lækkað í 295 milljónir evra (2008: 379 milljónir evra) vegna sterks sjóðstreymis, velheppnaðra hlutafjárútboða og sölu eininga utan kjarnastarfsemi."

Að því er fram kemur í ársreikningi er efnahagsreikningur Marel í upphafi árs 2010 sterkur. „Nettó skuldir nema 295 milljónum evra samanborið við 379 milljónir evra í upphafi árs 2009. Sjóðstreymi frá rekstri fyrir vexti og skatta nam 75 milljónum evra fyrir árið 2009 og nýtt hlutafé nam 49 milljónum evra. Þar að auki hefur dregið úr vaxtakostnaði og gengisáhættu með lækkun skulda í íslenskri krónu, sem og myntbreytingu á láni úr íslenskri krónu yfir í evru (að upphæð 66 milljónum evra), sem er megintekjumynt félagsins. Pantanabók Marel er traust í upphafi árs 2010 og mun betri en í upphafi árs 2009. Það er aukin markaðsvirkni á öllum sviðum og fjöldi fyrirspurna eykst, einnig varðandi stærri verkefni."

Ár umbreytinga að baki

Theo Hoen, forstjóri segir að ár umbreytinga og niðurskurðar sé að baki. „Ég tel að fyrirtækið standa mun betur en það gerði fyrir ári. Við höfum náð góðum árangri í að skerpa á stefnu fyrirtækisins. Sameiningu Marel og Stork miðaði vel á seinni hluta árs. Jákvæðu áhrifin af sparnaði og kross-sölu verða veruleg og munu koma betur fram þegar líður á árið 2010. Arðsemi og sjóðstreymi hafa batnað. Við stöndum sterkari eftir að hafa lækkað kostnaðargrunn fyrirtækisins án þess að draga úr fjárfestingu í rannsóknar- og þróunarvinnu. Auk þess hefur skuldsetning minnkað," segir hann og bætir við að hann hafi mikla trú á framtíð fyrirtækisins og að Marel muni takast að ná langtímamarkmiðum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×