Viðskipti innlent

Engin fyrirspurn frá Íslandi um norskt lán

Margit F. Tveiten sendiherra Noregs á Íslandi segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki lagt fram neina fyrirspurn um hvort Norðmenn væru til í að lána Íslandi fyrir Icesave til að leysa hnútinn sem kominn er í málinu.

Tveiten segir að komi slík fyrirspurn muni Norðmenn að sjálfsögðu athuga það mál og möguleikann á að veita Íslandi slíkt lán. Hugmyndin var að Norðmenn myndu greiða Icesave skuldina og síðan semja við Íslendinga um endurgreiðslur á hagstæðari lána- og vaxtakjörum en eru í boði frá Bretum og Hollendingum.

Eins og fram hefur komið í minnisblaði frá bandarísk sendifulltrúanum Sam Watson og lekið var á wikileaks.org ræddi Watson þennan möguleika við Ian Whiting sendiherra Breta á Íslandi í janúar s.l.

Í minnisblaðinu stendur..."ef samið yrði við Noreg um lán á góðum kjörum myndi það leyfa báðum málsaðilum að halda því fram að þeir hefðu sigrað. Breta og Hollendingar myndu fá peninga sína og Íslendingar gætu borgað skuldir sínar á betri kjörum."

Ennfremur segir í minnisblaðinu að Whiting hafi sagst ætla að ræða málið við norska sendiherrann sama dag og minnisblaðið var skrifað.

Tveiten segir að hún vilji ekki ræða um samtöl sín við breska sendiherrann um þetta mál þar sem þau samtöl séu trúnaðarupplýsingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×