Viðskipti innlent

FÍS breytir nafni sínu í Félag atvinnurekenda

Samþykkt var á aðalfundi Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) í gær eftir miklar umræður að breyta nafni félagsins í Félag atvinnurekenda.

Í tilkynningu segir að helsta ástæða nafnabreytingarinnar er að hugtakið stórkaupmaður er orðið sjaldgæft í íslenskri málnotkun. Þörf hafi verið á nafni sem hefði breiðari skírskotun og væri lýsandi fyrir þau fyrirtæki sem eru aðilar að félaginu í dag.

Félagið mun hér eftir sem hingað til vera málsvari verslunar og milliríkjaviðskipta, með áherslu á að minni og meðalstór fyrirtæki verði áfram undirstaða hagsældar í landinu.

Í ræðu sem hún flutti á aðalfundinum sagði Margrét Guðmundsdóttir, formaður félagsins, stöðu efnahagsmála á Íslandi nú um stundir vera erfiða. Algjört hrun hafi orðið í eftirspurn og fyrirtæki sem vinni á innlendum markaði hafi þurft að laga sig að því.

Áhyggjuefni sé að einkaneysla, drifkraftur verslunar og þjónustustarfsemi, sé ekki að taka við sér. Fyrirtækin í landinu, ekki síst þau litlu og meðalstóru, hafi þurft að hagræða og sýna útsjónarsemi. Því miður sé afleiðingin stóraukið atvinnuleysi - sem ekki megi verða viðvarandi.

„Við þurfum kjark, bjartsýni og ekki síst samstillt átak þjóðarinnar til að rífa okkur upp úr hjólförunum. Það er í höndum okkar atvinnurekenda að koma á styrkari umgjörð um viðskiptalíf á Íslandi. Félag atvinnurekenda hefur alltaf og mun áfram beita sér fyrir heilbrigðum viðskiptaháttum og réttlátum leikreglum í samkeppni," sagði Margrét Guðmundsdóttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×