Viðskipti innlent

Bestu launin í þrotabúunum

úr einum bankanna Starfsfólk bankanna í eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og á tengdum sviðum er með hæstu launin. Launin hækka í takt við menntun og sérfræðiþekkingu. Fréttablaðið/vilhelm
úr einum bankanna Starfsfólk bankanna í eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og á tengdum sviðum er með hæstu launin. Launin hækka í takt við menntun og sérfræðiþekkingu. Fréttablaðið/vilhelm

Starfsfólk skilanefndar og slitastjórnar Glitnis var með hæstu meðallaunin í bankakerfinu á liðnu ári, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Meðallaun þar námu 874 þúsund krónum á mánuði.

Ein lægstu meðallaun innan fjármálageirans hafði starfsfólk hjá Byr sparisjóði, 467.790 krónur á mánuði.

Erfitt er að meta launakjör innan fjármálageirans, jafnt hjá gömlu bönkunum sem öðrum fjármálafyrirtækjum. Fréttablaðið sendi þeim helstu fyrirspurn um launaupplýsingar í síðustu viku. Ítarlegri upplýsingar um kaup og kjör fengust ekki. Tekið var fram í svörum fyrirtækjanna að laun hafi almennt lækkað mikið eftir hrunið 2008, eða um allt að þrjátíu prósent.

Landsbankinn greindi þó frá því að Ásmundur Stefánsson bankastjóri er launahæsti starfsmaður bankans með 1,5 milljónir króna auk tvö hundruð þúsund króna í hlunnindi á mánuði. Eftir því sem næst verður komist eru framkvæmdastjórar bankanna með í kringum eina milljón króna á mánuði þrátt fyrir launalækkun. Þá herma nokkrar heimildir að starfsfólk skilanefnda og slitastjórna bankanna sé með allt upp undir tvær milljónir króna í mánaðarlaun. Það hefur ekki fengist staðfest.

Engir bónusar hafa verið greiddir frá hruni, hvorki hjá gömlu bönkunum né hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, samkvæmt upplýsingum frá þeim. Ekki fengust upplýsingar frá skilanefndum Straums, Spron og Sparisjóðabankans.

Launamunurinn skrifast að miklu leyti á menntun og bakgrunn starfsfólks fyrirtækjanna. Nær allt starfsfólk skilanefnda og slitastjórna er sérfræðingar; lögfræðingar, hagfræðingar, viðskiptafræðingar og lögfræðingar. Um 65 til sjötíu prósent starfsmanna Íslandsbanka er með háskólamenntun, 62 prósent starfsmanna MP Banka, um helmingur starfsmanna Arion banka en fjörutíu prósent hjá Byr og Nýja Landsbankanum. Flestir háskólamenntaðra starfsmanna bankanna eru með viðskiptafræðimenntun. jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×