Viðskipti innlent

Seðlabankinn í pattstöðu

Engin rök eru fyrir háum vöxtum Seðlabankans. Afgangur af vöruskiptum við útlönd er mikill og gríðarlegur slaki er á innlendri eftirspurn. Það endurspeglast í meira atvinnuleysi en sést hefur hér á landi. Seðlabankinn er hins vegar í pattstöðu enda verður hann að hafa rými til að hækka stýrivexti þegar krónunni verður sleppt lausri.

Þetta er álit Skuggabankastjórnar Fréttablaðsins, sem ekki er einróma í vaxtaákvörðun sinni að þessu sinni. Hún ráðleggur að lækka stýrivexti um allt frá fjórðungi úr prósenti upp í eitt prósent.

Það sem helst mælir gegn myndarlegri lækkun stýrivaxta er Icesave-málið og óvissa um erlendar lánveitingar. Skuggabankastjórnin segir óvissuna of mikla til að lækka stýrivexti hratt. Skuggabankastjórnin segir Icesave-málið hæglega geta dregist langt fram eftir ári og valdið því að mikilvæg efnahagsmál verði látin sitja á hakanum. Því verði að koma málinu frá.

Skuggabankastjórnin segir mikilvægt að lækka stýrivexti til að koma atvinnulífi á hreyfingu. Á sama tíma þurfi að afnema gjaldeyrishöft í nokkrum skrefum á næstu mánuðum og opna fyrir frelsi í fjármagnshreyfingum landa á milli innan tveggja ára.

Seðlabankinn hefur ekkert gefið út hvenær sú stund rennur upp. Þegar það gerist verður Seðlabankinn að hækka stýrivexti. Hann hefur hins vegar misst af tækifærinu og stendur nú frammi fyrir því að stýrivextir eru of háir á sama tíma og hann þarf að hækka þá frekar á næstu árum til að forðast gengis-hrun, að mati Skuggabankastjórnarinnar.

Stýrivextir Seðlabankans standa nú í 9,5 prósentum. Bankinn greinir frá vaxtaákvörðun sinni á morgun.

jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×