Erlent

Styðja bandaríska dómara fjárhagslega

Ruth Ginsburg, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, gagnrýnir fyrirkomulagið.
Ruth Ginsburg, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, gagnrýnir fyrirkomulagið. Mynd/AFP
Færst hefur í vöxt sumum ríkjum Bandaríkjanna að hagsmunahópar styðji fjárhagslega við bakið á dómurum sem sækjast eftir kosningu í hæstarétt dómstóla ríkjanna.

Í ríkjum á borð við Alabama, Ohio, Pensylvaníu og í Texas kýs almenningur á milli frambjóðenda í hæstarétt ríkisins. Kostnaður við kosningarnar hefur aukist mikið á síðustu árum og mörg dæmi eru um að sérhagsmunahópar beiti sér fyrir því að menn sem hliðhollir eru málstað þeirra séu kosnir í hæstarétt. Frá þessu er greint í bandaríska blaðinu Washington Post en skýrsla um málið var unnin af óháðum samtökum. Á þessu ári hefur 207 milljónum dollara verið varið í kosningabaráttu af þessu tagi og hefur uppæðin tvöfaldast á einum áratug.

Ruth Ginsburg, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hefur nú kallað eftir því að ríkin breyti því fyrirkomulagi að kjósa dómara í almennum kosningum. Með þessu stillir hún sér í lið með öðrum fyrrverandi hæstaréttardómara, Söndru Day O-Connor, sem lengi hefur barist fyrir því að fyrirkomulagið verði aflagt, enda veiki það tiltrú almennings á dómstólunum og dragi upp þá mynd að fyrirtæki og þrýstihópar geti keypt dómara til þess að ná sínu fram. Þrátt fyrir aukinn þunga í þessari umræðu hafa flestar tilraunir til þess að draga úr peningaaustri í kosningabaráttu í Bandaríkjunum mistekist. Nú síðast felldi Hæstiréttur Bandaríkjanna þann dóm að fyrirtækjum sé heimilt að veita ótakmörkuðum fjárhæðum til stjórnmálamanna sem sækjast eftir embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×