Handbolti

Guðmundur: Betur undirbúnir en á EM í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari. Mynd/DIENER

Í annað skiptið í sögu Íslands spilar handboltalandsliðið til verðlauna á Evrópumeistaramóti í handbolta. Það gerðist einnig árið 2002 en þá tapaði Ísland fyrir Danmörku.

Guðmundur Guðmundsson var einnig þjálfari íslenska landsliðsins þá.

„Mér finnst við betur undirbúnir núna og með sterkari liðsheild. Ég vil alls ekki gera lítið úr liðinu sem við áttum árið 2002 enda var það frábært lið," sagði Guðmundur eftir að Ísland tapaði fyrir Frakklandi í undanúrslitunum í gær.

„En ég tel að breiddin sé meiri í liðinu nú. Við munum mæta grimmir til leiks á morgun. Brons er brons og það er mikill munur á þriðja og fjórða sæti."

„Það er ekki spurning um að við ætlum okkur sigur. Við höfum áður tekist á við mótlæti á þessu móti og náðum að bregðast vel við því. Ég hef enga ástæðu til að ætla að svo verði ekki nú."

„Nú þurfum við að einbeita okkur að næsta andstæðingi og við ætlum okkur að berjast um bronsið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×