Handbolti

Róbert: Dæmigert fyrir handboltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Róbert Gunnarsson hefur skorað 15 mörk í 17 skotum á EM.
Róbert Gunnarsson hefur skorað 15 mörk í 17 skotum á EM. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Róbert Gunnarsson furðar sig á því að liðin sem urðu í efsta sæti í sínum riðlum í riðlakeppninni skuli mætast strax í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar.

Ísland og Króatía urðu í fyrsta sæti sinna riðla um helgina og mætast í dag. Í gær áttust við sigurvegarar C- og D-riðla, Pólland og Spánn, í hinum milliriðlinum.

„Þetta er eitthvað svo dæmigert fyrir handboltann að ég nenni bara ekki að pæla í þessu. Það virðist alltaf vera eitthvað nýtt. Það getur svo vel verið að það verði komnar einhverjar nýjar áherslur í dómgæslunni á morgun," sagði Róbert við Vísi.

„Því verður maður bara að hugsa um sjálfan sig. Það þýðir ekkert að pæla í einhverju sem maður fær ekki stjórnað."

Og hann sagðist vera spenntur fyrir leik dagsins. „Okkur líður vel og er höllin sem við spilum í er mjög skemmtileg og öðruvísi."

Hann hefur ekki áhyggjur af spennufalli eftir leikinn mikilvæga við Danmörku um helgina.

„Það er léttir að hafa unnið leikinn en vonandi ekki spennufall því við þurfum að halda áfram með vindinn í bakið. Við vorum komnir í erfiða stöðu í síðustu viku og við vissum alltaf að leikurinn við Dani yrði lykilleikur. En við kláruðum það sem betur fer og mætum fullir sjálfstrausts til leiks gegn Króatíu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×