Erlent

Búist við átökum í Íran

Frá mótmælunum í júní á síðasta ári. Mynd/AP
Frá mótmælunum í júní á síðasta ári. Mynd/AP

Stjórn og stjórnarandstaðan í Íran boða til fjöldafunda í dag til að minnast byltingarinnar í landinu árið 1979 þegar íslamska lýðveldið var stofnað. Búist er við átökum milli öryggissveita stjórnvalda og umbótasinna.

Byltingin hófst með uppþotum árið 1978 og lauk með því að klerkaveldi var komið á ári síðar.

Mikill óróleiki hefur verið í landinu frá því í forsetakosningunum í júní á síðasta ári þegar Mahmoud Ahmadinejad forseti náði endurkjöri með kosningasvindli að mati stjórnarandstæðinga.

Réttað hefur verið yfir rúmlega 100 umbótasinnum og pólitískum róttæklingum frá mótmælunum í fyrra. Þar af hafa fimm verið dæmdir til dauða og um 80 dæmdir í sex mánaða til fimmtán ára fangelsi.

Búist er við því að upp úr sjóði í dag og til átaka komi. Öryggissveitir stjórnvalda handtóku í gær fjölda umbótasinna. Jafnframt eru mótmælendur varaðir við að ganga of langt og segja stjórnvöld að hart verið brugðist við aðgerðum þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×