Skoðun

Pólitískt skipað í stöður?

Margrét Björnsdóttir skrifar

Ef stjórnmálamenn hefðu átt að læra eitthvað af hruninu, þá var það, að velja ekki í embætti samkvæmt flokkspólitískum sjónarmiðum. Embættismennirnir Davíð Oddsson, Finnur Ingólfsson og Páll Gunnar Pálsson voru allir skipaðir í embætti út frá flokkspólitískum sjónarmiðum, en ekki hæfni. Allir áttu þeir þátt í að reisa íslensku þjóðinni bálköst í formi einkavædds bankakerfis, með liðónýtu slökkviliði.

Ögmundur Jónasson, sem í liðinni viku tók þátt í því leikriti að skipa pólitískan aðstoðarmann Jóns Bjarnasonar í eftirsótt embætti í ráðuneyti Jóns, sagði; „ráðningin er á mína ábyrgð, ég svara einn fyrir það," þegar hann var spurður í Fréttablaðinu sl. laugardag um hverjir hafi lagt mat á hæfi hinna þrettán umsækjenda. Á Eyjunni bætir hann síðan við: „Ég óskaði eftir því að starfsmenn ráðuneytisins færu yfir umsækjendur á faglegum nótum og Jóhann varð þar hlutskarpastur." Hann vildi þó ekki svara því hverjir í ráðuneytinu lögðu mat á hæfi umsækjendanna. Frekari skýringar telur hann sig ekki skulda íslenskum almenningi. Er þetta ekki sama leikritið og þegar Árni Mathiesen var látinn skipa son Davíðs Oddssonar í dómaraembætti, í stað Björns Bjarnasonar, þvert á niðurstöður valnefndar? Ráðherra er vanhæfur vegna tengsla við tiltekinn umsækjanda og flokksbróðir beggja tekur hlutverkið að sér, til að tryggja hlutleysi. Hver tekur mark á svona?

Af hverju í ósköpunum er ekki drifið í því að samþykkja fyrirliggjandi tillögur um ráðningar hjá hinu opinbera, sem koma eiga í veg fyrir svona. Með skipan óháðra valnefnda og verulega eða algera takmörkun á möguleikum til pólitískrar íhlutunar, eins og loks var gert sl. vetur varðandi ráðningar dómara. Af hverju eru ekki settar reglur sem heimila ráðherrum að ráða sér tímabundið pólitískt valda upplýsingafulltrúa og sérfræðinga. Þeir þurfa á þeim að halda, eru stöðugt að ráða sér einhverja slíka, án þess að hafa til þess lagaheimildir og fá reglulega bágt fyrir hjá umboðsmanni Alþingis, ákúrur í fjölmiðlum og uppskera fyrirlitningu hjá þrautpíndum íslenskum almenningi. Nú er hafin önnur umferð hjá Íbúðalánasjóði, mögulega til að reyna að koma Framsóknarkandídatinum í embættið. Vonandi hlutast nýr ráðherra til um ráðningarferli sem tryggir, að hæfasti umsækjandinn verði ráðinn.

Íslenskt samfélag er að liðast í sundur m.a. vegna vantrausts á stjórnmálamönnum, flokkspólitískar ráðningar eru olía á þann eld.




Skoðun

Sjá meira


×