Handbolti

Guðmundur: Mjög ódýrir brottrekstrar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Mynd/DIENER/Leena Manhart

Guðmundur Guðmundsson var vonsvikinn eftir leik Íslands og Króatíu á EM í handbolta í Vínarborg í dag. Leiknum lyktaði með jafntefli, 26-26.

„Ég er vonsvikinn því við vorum alveg svakalega nálægt því að taka þetta,“ sagði Guðmundur.

Ísland var yfir lengst af í leiknum en Króatía náði frumkvæðinu nokkrum mínútum fyrir leikslok og átti síðasta skot leiksins. Björgvin Páll Gústavsson varði það.

En á þessum kafla fékk Ísland hverja tveggja mínútna brottvísuna á fætur annarri og segir Guðmundur erfitt að sætta sig við það.

„Þetta voru alveg svakalega ódýrir brottrekstrar og það trekk í trekk. Vissulega vorum við í einhverjum tilvikum klaufar en oftast var þetta fyrir mjög litlar sakir.“

„Þeir fengu líka að hanga lengi á boltanum án þess að höndin kæmi upp. Þetta var með ólíkindum og við erum svekktir með það.“

Hann segir þó vel hægt að lifa með úrslitunum.

„Það var gott að fá stig á móti þessu frábæra liði og við erum enn taplausir á mótinu. Það bætir í safnið og nú erum við með fjögur stig. Við munum því fara fullir sjálfstrausts í næstu leiki enda varnarleikurinn orðinn miklu betri en hann var í upphafi móts.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×