Handbolti

Hreiðar: Þetta var fallegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson fagnar einni af markvörslum sínum.
Hreiðar Levý Guðmundsson fagnar einni af markvörslum sínum. Mynd/DIENER
Hreiðar Guðmundsson er ein af hetjum dagsins í íslenska landsliðinu. Hann kom inn á í síðari hálfleik gegn Póllandi í dag og varði nokkur afar mikilvæg skot þegar mest á reyndi.

Ísland var með átta marka forystu í hálfleik, 18-10, en Pólverjar náðu að minnka muninn í eitt mark í þeim síðari. Nær komust þeir ekki, til að mynda vegna markvörslu Hreiðars. Niðurstaðan var þriggja marka sigur, 29-26.

„Þetta var ótrúlegt og alveg frábært. En mikið hrikalega var þetta orðið hættulegt. Við vorum að koma þeim inn í leikinn aftur," sagði Hreiðar eftir leikinn.

„Ég var bara tilbúinn," sagði hann um sína innkomu. „Maður verður auðvitað að grípa tækifærið þegar það gefst."

„Þetta er búin að vera mjög erfið keppni. Við höfum þurft að einbeita okkur að mörgum leikjum á stuttum tíma. Andlega þreytan er farin að síga inn hjá mörgum."

„En við ætluðum okkur að koma grimmir inn í leikinn og taka bronsið. Við ætluðum ekki að hengja okkur á tapleikinn í gær. Þetta var fallegt og nú höfum við unnið aðra medalíuna okkar í röð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×