Skoðun

Karlar sem hata konur

Guðrún Helga Jónsdóttir skrifar
Egill Helgason stýrir tveim þáttum í Ríkissjónvarpinu, báðum afbragðsgóðum.

Ég hef passað upp á að missa helst aldrei af Kiljunni. 28. september síðastliðinn lét ég mig ekki vanta við sjónvarps­skjáinn. Þátturinn olli mér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn, þangað til kom að innleggi Braga Kristjónssonar.

Í upphafi spjalls þeirra bað Bragi Egil að lesa upp ljóð í sinn stað eftir einhvern mesta snilling sem Bragi hefði kynnst á sviði atómljóðlistar þar sem Bragi taldi Egill miklu betri lesara. Egill brást við göfugmannlega og las þetta „ljóð" hátt og fallega. „Ljóðið" var subbuleg níðvísa um Ingibjörgu Sólrúnu.

Nú spyr ég þig Egill: Ertu til í að birta níðvísur eftir mig í þætti þínum? Já, ég hef nefnilega verið að fást við nútíma skáldskap og aðallega níðvísur um pólitíska andstæðinga mína. Vísurnar mínar eru mjög mergjaðar. Allar um karla.

Ég reyndi að hringja í þig Egill en þú ert ekki í símaskránni. Hvers vegna?

Ég verð að játa að ef þessi þáttur þinn á að gefa elliærum kvenhöturum færi á að fá útrás fyrir hatur sitt á konum þá má taka hann út af dagskrá sjónvarpsins mér að meinalausu.

Ég hélt satt að segja að dómgreind þín á bókmenntum væri á hærra plani.




Skoðun

Sjá meira


×