Erlent

Stjórnarkreppan í Hollandi hefur ekki áhrif á Icesaveviðræðurnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnarkreppan í Hollandi breytir ekki framgangi mála í Icesaveviðræðunum að mati stjórnmálaskýranda í Hollandi.

Verkamannaflokkur Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands gekk úr ríkisstjórn landsins eftir sextán klukkustunda maraþonfund ríkisstjórnarinnar sem lauk í nótt. Verkamannaflokkurinn gat ekki sætt sig við áframhaldandi þátttöku Hollendinga í hernaði vesturveldanna í Uruzghan í suðurhluta Afganistans.

Líf hollensku ríkisstjórnarinnar hefur hangið á bláþræði undanfarnar vikur en þriggja flokka samsteypustjórn Kristilegra demókrata, Verkamannaflokksins og Kristilega bandalagsins hefur setið við völd í þrjú ár.

Kosningar í landinu fara að líkindum fram í byrjun júní, en stjórnarkreppan í landinu mun ekki hafa áhrif á framgang mála í Icesave viðræðunum, að mati stjórnmálaskýranda hollensku sjónvarpsstöðvarinnar RTL.

Samkvæmt hollenskum lögum skulu þingkosningar ekki fara fram fyrr en 83 dögum eftir afsögn ríkisstjórnar. Kristilegir demókratar eru stærsti flokkur Hollands með 41 þingmann en Verkamannaflokkurinn er næst stærstur með 33 þingmenn. Honum er spáð miklu fylgistapi verði yrði kosið nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×