Viðskipti innlent

Bílaleiga Akureyrar kaupir 175 nýja bíla af Suzuki umboðinu

Höldur-Bílaleiga Akureyrar og Suzuki bílaumboðið á Íslandi hafa skrifað undir kaup bílaleigunnar á að minnsta kosti 175 nýjum bílum af tegundunum Suzuki Swift og Suzuki Grand Vitara og hugsanlega verður bílunum fjölgað eitthvað þegar nær dregur sumri, að fram kemur í tilkynningu. Fyrr í dag var greint frá samkomulagi bílaleigunnar og Heklu um kaup á 200 nýjum bílum.

Bílaleiga Akureyrar verður með tæplega 2.300 bíla í rekstri í sumar. „Við höfum átt mikil og ánægjuleg viðskipti við Suzuki umboðið undanfarin ár, bílarnir hafa reynst vel og viðskiptavinir okkar ánægðir með þá og því er það gleðiefni að tryggja þessi kaup núna fyrir komandi ferðamannavertíð sem stefnir í að verða nokkuð góð þó svo enn sé full snemmt að spá endanlega til um það," segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, í tilkynningu.

Úlfar Hinriksson, forstjóri Suzuki bíla hf, segir að Suzuki og Bílaleiga Akureyrar hafi átt góð og ánægjuleg viðskipti í yfir 20 ár og bendir á að þau hafi meðal annars stuðlað að því að Suzuki Swift var söluhæsti fólksbíllinn á Íslandi árið 2009 og Suzuki Grand Vitara söluhæsti jeppinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×