Skoðun

Háskólarannsóknir á tímum kreppu og doktorsnám á Íslandi

Eiríkur Steingrímsson og Magnús Karl Magnússon skrifa:

Í fyrri greinum okkar höfum fjallað um hlutverk háskóla, fjármögnun vísindaverkefna og gæðamat. Við rannsóknarháskóla er doktorsnám grundvallareining rannsóknarstarfs háskóla. Langveigamesti þáttur slíks náms er vísindaverkefni doktorsnemans en í því felst sjálfstætt rannsóknarverkefni unnið undir handleiðslu háskólakennara. Slík vísindaverkefni eru víðast burðareining rannsóknarstarfs skólans.

Doktorsneminn er þannig að mestu að vinna að sínu vísindaverkefni og þiggur fyrir það laun eða styrk. Kostnaður við slíkt nám nemur 4-8 milljónum á ári vegna launa og rekstrarkostnaðar og heildarkostnaður fyrir fjögurra ára doktorsnám er því um 16-32 milljónir. Við þetta bætist síðan kostnaður við uppbyggingu rannsóknarinnviða (t.d. tæki og gagnagrunnar), launakostnaður kennara og aðstoðarfólks og ýmiss konar samrekstur.

Víðast hvar erlendis eru rannsóknarverkefni doktorsnema fjármögnuð gegnum samkeppnissjóði þar sem jafningjamati er beitt og eru slíkir styrkir forsenda fyrir doktorsnáminu og um leið tryggja þeir gæði vísindaverkefnanna og doktorsnámsins. Þrátt fyrir mjög metnaðarfull markmið um fjölgun doktorsnema á síðustu árum hefur ekki átt sér stað samhliða áætlun um fjármögnun þessa námsstigs. Við Háskóla Íslands hefur fjöldi skráðra doktorsnema farið úr 36 árið 1999 í 190 árið 2006 og voru þeir í júní á þessu ári 487. Ljóst er að rekstrarfjármagn til vísindaverkefna stendur engan veginn undir þessum fjölda doktorsnema. Okkur er því fyrirmunað að skilja hvaðan fjármagnið kemur sem drífur áfram þessa sprengingu í fjölda doktorsnema.

Magnús Karl Magnússon prófessor.

Staðan í dag er sú að samkeppnissjóðirnir rýrna ár frá ári. Eimskipasjóður Háskóla Íslands sem veitt hefur myndarlega styrki til doktorsverkefna er að engu orðinn, styrkjum úr doktorsnemasjóði HÍ fækkar og samkeppnissjóðir í umsjón Rannís, einu sjóðirnir sem hafa þá faglegu aðferðafræði að tryggja raunveruleg gæði vísindaverkefna dragast saman ár frá ári þrátt fyrir að sókn í þá aukist verulega. Þetta er að gerast á sama tíma og við erum að leggja verulega aukna áherslu á þetta stig háskólastarfseminnar. Með öðrum orðum, við sitjum nú uppi með metnaðarfull áform um uppbyggingu doktorsnáms, hundruð doktorsnema í námi en samkeppnissjóðir sem eiga að tryggja gæði og styðja þessa uppbyggingu eru komnir að fótum fram.

Það vantar talsmenn fyrir eflingu samkeppnissjóðanna. Því miður hafa yfirmenn háskólastofnana verið svo uppteknir við tryggja grunnfjárveitingar til að halda háskólunum gangandi að þeir hafa ekki veitt yfirvöldum nógu skýr skilaboð um að forsenda vísindastarfsemi þessara stofnana byggir á því að fé sé veitt beint til vísindaverkefna á forsendum gæða. Við teljum að doktorsnám við háskóla á Íslandi sé nú í uppnámi. Það sem verst er, er að sennilega munu þeir hópar sem mest hafa reitt sig á fjármagn úr samkeppnissjóðum þ.e. sterkustu vísindahópar háskólanna verða verst úti.

Við teljum mikilvægt að ráðamenn vakni úr dvala og átti sig á því að enginn háskóli nær raunverulegum árangri án þess að styðja við bestu vísindamenn skólanna. Slíkan stuðning á að tryggja með því að veita raunverulegt fjármagn til vísindastarfsemi og um leið tryggja að fjármunirnir fari til þeirra vísindaverkefna sem best eru að gæðum. Um allan heim er slíkt gert með fjárveitingum í gegnum samkeppnissjóði þar sem sjálfstætt og óháð mat er lagt á hvert vísindaverkefni. Við höfum slíkt kerfi hér á landi innan sjóða sem úthluta styrkjum á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þeir sjóðir eru fjársveltir en með margföldun á fjármunum til þeirra má tryggja raunverulegan grundvöll fyrir doktorsnám, þekkingarsköpun innan háskóla og fyrirsjáanlega nýsköpun íslensku samfélagi til heilla.




Skoðun

Sjá meira


×